„Þetta var faraldurinn“

Preben Aavitsland, yfirlæknir og sóttvarnasérfræðingur, lýsti því yfir á Twitter …
Preben Aavitsland, yfirlæknir og sóttvarnasérfræðingur, lýsti því yfir á Twitter í morgun að kórónuveirufaraldrinum væri lokið í Noregi. Aðstoðarforstöðumaður Heilbrigðisstofnunar Noregs dregur úr þeirri yfirlýsingu. Ljósmynd/Dagensmedisin.no

Preben Aavitsland, yfirlæknir norsku lýðheilsustofnunarinnar FHI og einn annálaðasti sóttvarnasérfræðingur Noregs, boðaði endalok kórónuveirufaraldursins í Noregi þegar hann skrifaði á Twitter-síðu sína í morgun „Þetta var faraldurinn“ eða „Det var den pandemien“ á sínu móðurmáli.

„Hér í Noregi er faraldrinum svo gott sem lokið,“ segir yfirlæknirinn í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í dag. „Sárafáir leggjast inn á sjúkrahús og smit sem greinast viku hverja eru um það bil tvö þúsund. Við komum til með að sjá eina og eina smitbylgju hér og þar, en vitum hvernig þær má stöðva á þremur fjórum vikum,“ segir hann enn fremur.

Heldur hann máli sínu áfram með því að Norðmenn geti farið að búa sig undir hversdagslegan veruleika þar sem kórónuveiran verði í mýflugumynd. „Slökkviliðsstjóri myndi lýsa því sem svo að skógareldurinn væri slökktur og háskinn fyrir fólk og mannvirki úr sögunni, en drepa þyrfti í glæðum hér og þar og mannskapurinn verði á vakt,“ segir Aavitland til að draga upp mynd af stöðu mála nú.

Því miður ekki alveg lokið

Espen Rostrup Nakstad, aðstoðarforstöðumaður Heilbrigðisstofnunar Noregs, Helsedirektoratet, vill ekki taka eins djúpt í árinni og Aavitsland yfirlæknir, inntur álits á yfirlýsingu þess síðarnefnda á Twitter.

„Því miður er því ekki þannig farið að faraldrinum sé alveg lokið í Noregi þrátt fyrir að við sjáum ánægjulega fækkun smita og sjúkrahúsinnlagna,“ segir Nakstad í skriflegu svari til NRK.

„Fyrst og fremst er þarna um að ræða jákvæða staðfestingu á því að afléttingaráætlun ríkisstjórnarinnar virkar og almenningur stendur sig með prýði við að hindra smit auk þess sem bólusetningaráætlunin skilar sínu,“ skrifar hann að auki og leggur í framhaldinu áherslu á að hafa þurfi vakandi auga með nýjum afbrigðum veirunnar, ekki síst því indverska.

Sjúkrahúsinnlagnir aðalmælikvarðinn

Segir aðstoðarforstöðumaðurinn, sem er allt í senn, læknir, lögfræðingur og rithöfundur, og hefur jafnan komið fram sem hin kalda rödd skynseminnar í faraldrinum fram til þessa, að norska þjóðin megi ekki leyfa sér að sofna á verðinum fyrr en búið sé að fullbólusetja hana alla í ágúst eða september. „Þá getum við vonandi lifað eðlilegu lífi á ný, þótt faraldrinum sé vitanlega ekki lokið í Noregi fyrr en honum er lokið alls staðar annars staðar,“ eru lokaorðin.

Aavitsland yfirlæknir stendur þó við yfirlýsingu sína. „Tíðni sjúkrahúsinnlagna er besti mælikvarðinn sem við höfum á þunga faraldursins. Eitt af mikilvægustu markmiðum baráttunnar gegn veirunni hefur verið að forðast að sjúkrahúsin yfirfyllist og því markmiði höfum við náð,“ segir hann og bætir því við að hátt hlutfall eldra fólks og sjúklinga, sem nú hafi fengið bólusetningu geri það að verkum að mjög fáir séu nú eftir sem geti orðið svo veikir af veirunni að þeir þarfnist innlagnar.

Bólusetningar sumarsins smiðshöggið

Hann spáir því, að í þeim ríkjum heimsins, sem standi hve verst að vígi efnahagslega og hvað heilbrigðiskerfi snertir, muni faraldurinn geisa áfram í nokkur ár. „Veiran á eftir að taka nokkrar milljónir mannslífa í viðbót og enn er hætta á því að fram komi afbrigði hennar sem eru ónæm fyrir bólusetningu.

Við fylgjumst að sjálfsögðu grannt með nýjum afbrigðum, en eins og staðan er nú virðist ekkert þeirra ætla að valda miklum búsifjum hér heima [í Noregi]. Komi slíkt upp í framtíðinni verður brugðist við því, með breyttum bóluefnum ef á þarf að halda,“ segir Aavitsland og er í lokin spurður hvort bágt ástand meðal annarra þjóði geti ekki að lokum eins náð til Noregs.

„Yfir sumarið munu nánast allir fullorðnir hafa hlotið vörn gegnum bólusetningu. Þar með á veiran rýra möguleika á að orsaka alvarleg veikindi hér í landinu,“ eru lokaorð læknisins.

NRK

VG

Aftenposten

TV2

Danska ríkisútvarpið DR

Sænska ríkisútvarpið SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert