Tugir létust í lestarslysi

Viðbragðsaðilar að störfum.
Viðbragðsaðilar að störfum. AFP

Að minnsta kosti 40 létust og tugir slösuðust þegar tvær lestir lentu í árekstri skammt frá  borginni Daharki í Sindh-héraði í Pakistan.

Allt bendir til þess að önnur lestin hafi farið út af teinunum með þeim afleiðingum að hinni var ekið á miklum hraða á hana.

Fjöldi fólks sat fastur í lestarklefunum og tók það björgunarsveitir og sjúkralið fleiri klukkustundir að koma því út. Slysið varð um miðja nótt og má ætla að stór hluti farþega hafi verið sofandi þegar slysið varð. 

Lestin var á leið frá Karachi til Sargodha þegar hún fór út af sporinu og yfir á lestarsporin þar sem hin lestin kom úr gagnstæðri átt. 

„Ég var enn að reyna að ná áttum þegar hin lestin keyrði á okkur,“
er haft eftir farþega í lestinni.

Innanríkisráðherra og fyrrum ráðherra lestarmála í Pakistan sagði lestarteinana þar sem slysið átti sér stað hafa verið lagða seint á 19. öld og sagði þá í rúst.

Yfirlögregluþjónn á svæðinu sagðist áður hafa varað yfirvöld við slæmu ástandi járnbrautarteinanna.

Pakistanski herinn var sendur á vettvang til aðstoðar við björgunaraðgerðir. Forsætisráðherrann Imran Kahn sagðist vera í áfalli vegna slyssins og lofaði ítarlegri rannsókn á slysinu.

Einn björgunarmanna sagði sambandsleysi á svæðinu gera samhæfingu björgunaraðila erfitt fyrir. „Ég stend hér uppi á þaki sjúkrabíls til þess að ná betra sambandi,“ er haft eftir honum.

Lestarslys algeng í Pakistan

Lestarslys eru nokkuð algeng í Pakistan. Lestarkerfið hefur verið í niðurníðslu undanfarna áratugi meðal annars vegna spillingar, viðhaldsleysis og skorts á fjármagni.

Árið 1990 létust til að mynda 300 manns og 700 særðust í lestarslysi í Sindh-héraði. Árið 2019 létust 75 manns þegar kviknaði eldur í lest sem var á leið frá Karachi til Rawalpindi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert