Biden telur misvísandi upplýsingar „drepa fólk“

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna segir misvísandi upplýsingar á samfélagsmiðlum valda …
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna segir misvísandi upplýsingar á samfélagsmiðlum valda dauðsföllum. AFP

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, telur að misvísandi upplýsingar varðandi kórónuveirufaraldurinn og bólusetningar séu „að drepa fólk“. Í tilkynningu frá Hvíta húsinu í dag kom fram að Facebook þyrfti að láta hendur standa fram úr ermum og taka á málinu.

„Þetta veldur dauðsföllum. Eini heimsfaraldurinn sem við erum að eiga við er meðal þeirra sem eru óbólusettir,“ sagði Biden við fjölmiðlamenn á leið sinni til forsetabústaðarins í Camp David.

Hvíta húsið þrýstir nú á samfélagsmiðlafyrirtæki til þess að hreinsa út af miðlunum það sem yfirvöld vilja meina að séu víðdreifðar misvísandi upplýsingar um áðurnefnd málefni.

Samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum þar ytra er uppsveifla faraldursins í Bandaríkjunum um þessar mundir nær eingöngu bundið við þann hóp sem ekki er bólusettur. Yfirmaður Sóttvarnarstofnunar Bandaríkjanna, Rochelle Walensky sagði við blaðamenn í dag: „Þetta eru skýr skilaboð sem við erum að fá núna, þetta er að verða að faraldri óbólusettra.“

Rochelle Walensky, yfirmaður bandarísku Sóttvarnastofnunarinnar segir faraldurinn orðinn faraldur þeirra …
Rochelle Walensky, yfirmaður bandarísku Sóttvarnastofnunarinnar segir faraldurinn orðinn faraldur þeirra óbólusettu. AFP

Falskar upplýsingar ala á efasemdum um bólusetningar

Þá hafa margir þeirra sem neita að láta bólusetja sig, þrátt fyrir auðvelt aðgengi að bóluefni víðast hvar um Bandaríkin, að þeir neiti sökum þess að þeir treysti ekki bóluefninu. Misvísandi áróður á samfélagsmiðlum og orðræða stöku stjórnmálamanna Repúblikanaflokksins eru talin olía á eldinn er varðar efasemdir þessa fólks. En sumir stjórnmálamenn hafa sagt bólusetninguna vera hluti af tilraun stjórnvalda til þess að stýra lífi fólks.

Blaðamannafulltrúi Hvíta hússins, Jen Psaki, segir Facebook og fleiri miðla ekki vera að gera nóg í baráttunni gegn fölskum upplýsingum. „Allir hafa hlutverki að gegna í því að tryggja að upplýsingar séu réttar og sannar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert