Ljósmyndari Reuters lést við störf sín

AFP

Ljósmyndari fréttaveitunnar Reuters, Danish Siddiqui, lést í dag við störf sín í Afganistan. Siddiqui var að mynda átök afganska hersins við talíbana nærri landamærunum við Pakístan þegar hann lést. 

„Við erum að leita að frekari upplýsingum, í samstarfi við yfirvöld á svæðinu,“ sögðu forseti Reuters, Michael Friedenberg, og ritstjóri miðilsins, Alessandra Galloni, í yfirlýsingu. „Danish var framúrskarandi blaðamaður, ástkær eiginmaður og faðir og afar dáður samstarfsmaður. Hugur okkar er hjá fjölskyldu hans á þessari erfiðu stund,“ segir í yfirlýsingunni. 

Siddiqui, sem var frá Indlandi, hafði notið verndar afganskra öryggissveita við störf sín á svæðinu síðustu daga. Hann slasaðist fyrir fáeinum dögum þegar hann fékk sprengubrot í höndina, en hafði fengið aðhlynningu og var á batavegi þegar hann lést í skotárás talíbana. Reauters segist ekki hafa geta staðfest atburðarrásina frekar. 

Siddiqui hafði unnið blaðamannaverðlaun Pulitzer fyrir myndir sínar, en hann hóf störf hjá Reuters árið 2010 sem starfsnemi. Hann myndaði meðal annars mótmælin í Hong Kong, jarðskjálftana í Nepal, stríðin í Afganistan og Írak og flótta Róhingja frá Mjanmar. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 

Danish Siddiqui.
Danish Siddiqui. Twitter/Danish Siddiqui
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert