Heilbrigðisráðherra Bretlands greindist með Covid-19

Sajid Javid, heilbrigðisráðherra Bretlands greindist með Covid-19 í dag og …
Sajid Javid, heilbrigðisráðherra Bretlands greindist með Covid-19 í dag og er nú kominn í einangrun. AFP

Sajid Javid, heilbrigðisráðherra Bretlands greindist jákvæður fyrir Covid-19 í dag og er nú kominn í einangrun. Á sama tíma undirbúa bresk stjórnvöld afléttingu sóttvarnaraðgerða þar í landi á mánudag.

„Mér leið ekki nógu vel í gærkvöldi svo ég ákvað að fara í hraðpróf í morgun og það kom út jákvætt,“ segir hann í Twitter-færslu.

„Ég og fjölskylda mín erum því kominn í einangrun heima þar til ég fæ niðurstöður úr PCR-prófi. Ég er þakklátur fyrir það að vera fullbólusettur og hingað til er ég með mjög væg einkenni.“

Samkvæmt reglugerðum breskra stjórnvalda er Javid gert að vera í einangrun í 10 daga nema hann fái neikvætt úr PCR-prófinu og sé einkennalaus, segir í frétt frá fréttastofunni AFP.

Fari heilbrigðisyfirvöld fram á það verða þeir einstaklingar sem hafa nýlega verið í návígi við Javid verða skikkaðir í sóttkví. Meðal þeirra gætu verið aðrir stjórnarmenn. 

Javid hvetur alla þá sem finna fyrir einkennum til að fara í skimun.

„Ef allir sinna sínu hlutverki erum við ekki aðeins að vernda okkur sjálf og ástvini okkar heldur einnig heilbrigðisþjónustuna í heild sinni,“ segir hann.

Aflétting sóttvarnaraðgerða gagnrýnd

Í ljósi fjölgunar á Covid-smitum í Bretlandi vilja vísindamenn meina að með afléttingu sóttvarnaraðgerða séu stjórnvöld að leggja heilbrigðisþjónustuna þar í landi í hættu.

Fleiri en 50.000 smit greindust í Bretlandi á föstudag og er það í fyrsta sinn sem svo mörg tilfelli greinast á einum degi síðan um miðjan janúar. Heilbrigðisráðherra varar við því að fjöldi greindra smita gæti tvöfaldast á næstu tveimur vikum.

Stjórnvöld í landinu halda því þó fram að ástandið sé viðráðanlegra nú þegar tveir þriðju þjóðarinnar hefur verið bólusettur. Í breskum fjölmiðlum hefur verið fjallað um daginn sem sóttvarnaraðgerðum verður aflétt í landinu sem „frelsisdaginn“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert