Óbólusettur einstaklingur á leið í innlögn

Landspítalinn við Hringbraut. Óbólusettur einstaklingur undir 60 ára aldri er …
Landspítalinn við Hringbraut. Óbólusettur einstaklingur undir 60 ára aldri er á leið í innlögn vegna Covid-19.

Einstaklingur undir 60 ára aldri er á leið í innlögn á Landspítala vegna Covid-19. Viðkomandi er óbólusettur. Þetta staðfestir Runólfur Pálsson, yfirlæknir á Covid-göngudeild Landspítala. Hann gat ekki tjáð sig um það hvort viðkomandi væri með undirliggjandi sjúkdóma.

Aðspurður hvort einstaklingurinn væri með alvarleg einkenni sagði Runólfur að þau væru að minnsta kosti nægilega alvarleg til að hann þyrfti að leggjast inn á spítala, en viðkomandi væri ekki að leggjast inn á gjörgæsluna.

Einn merktur „rauður“ og sá líka óbólusettur

Þá er annar einstaklingur með virkt smit, sem einnig er óbólusettur, merktur „rauður“ samkvæmt litakóðunarkerfi sem notað er til að meta einkenni einstaklinga sem liggja ekki inni á spítala. 

Þrír eru merktir gulir og eru þeir allir bólusettir. Aðrir eru merktir grænir en virk smit eru alls 296 talsins.

Grænir eru þeir sem eru með væg eða lítil einkenni Covid-19, gulir eru þeir sem eru með aukin og svæsnari einkenni og rauðir eru þeir sem eru með mjög mikil einkenni, veruleg andþyngsli og mikinn hita til að mynda. Ef viðkomandi er svo lagður inn á sjúkrahús fellur hann úr litakóðun göngudeildar enda kominn út fyrir þau mörk sem kerfið nær til.

„Það hefur kannski gleymst í umræðunni að það eru ekki allir fullorðnir bólusettir, það er náttúrlega enn þá fólk sem er ekki bólusett. Það er bara svo hátt hlutfall sem er bólusett og við náttúrlega hömpum því,“ segir Runólfur. 

Hann segir að staðan sé síbreytileg og einkenni fólks breytist hratt, bæði til hins betra og til hins verra. Viðbúið sé að ef margir smitast verði einhverjir veikir þrátt fyrir bólusetningu. 

Einn liggur nú inni á spítala vegna Covid-19 með lungnabólgu en sá er fullbólusettur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert