Bólusettir ekki í sóttkví við komuna til Englands

Bretar hafa létt hressilega á takmörkunum undanfarið, nú er áformað …
Bretar hafa létt hressilega á takmörkunum undanfarið, nú er áformað að gera það enn frekar á landamærum. AFP

Fullbólusettir ferðamenn frá aðildarríkjum ESB og frá Bandaríkjunum munu ekki þurfa í sóttkví við komuna til Englands, frá og með aðfaranótt næsta mánudags.

Stjórnvöld vonast til þess að þetta verði til þess að þeir sem búa ytra geti heimsótt fjölskyldur sínar í Englandi.

Ferðamenn munu samt ennþá þurfa að framvísa neikvæðu veiruprófi áður en stigið er um borð í flugvél eða ferju á leið til Englands og tveimur dögum eftir komuna til landsins.

Frétt BBC.

Dánartíðni lægri

Rúmlega 27 þúsund tilfelli kórónuveirunnar greindust í Bretlandi í gær og lauk þar með sjö daga runu þar sem tilfellum fækkaði á degi hverjum. Hins vegar eru smit töluvert færri en þau voru fyrir viku þegar rúmlega 44 þúsund manns greindust.

Í gær lést 131 Breti af völdum veirunnar, þar af var 91 sem lést innan fjögurra vikna frá smiti.

Síðast þegar um og yfir 20 þúsund tilfelli greindust í Bretlandi dóu rúmlega 1.000 manns á degi hverjum. Það var í lok janúar, þegar toppi síðustu bylgju þar í landi hafði nýverið verið náð, og þá var bólusetningarhlutfall töluvert lægra en það er nú.

Frakkar þurfa enn í sóttkví

Aðeins munu ferðamenn frá Frakklandi þurfa í sóttkví við komuna til Englands enn um sinn, þar sem Frakkland er á lista breskra stjórnvalda yfir „rauð“ lönd. Það er þó sagt vera til stöðugrar endurskoðunar.

Ekki er enn víst hvort aðrar þjóðir á Bretlandseyjum innleiði sömu reglur, forsætisráðherra Skotlands, Nicola Sturgeon, segir að viðræður milli þjóðanna fjögurra, Englands, Skotlands, Wales og N-Írlands, um samræmdar aðgerðir séu hafnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert