Er að missa vitið yfir ísbílnum

Ísbíllinn hefur ekið um borg og bý í Noregi í …
Ísbíllinn hefur ekið um borg og bý í Noregi í 25 ár, færandi varninginn heim, og spilað sama tónverkið allan þann aldarfjórðung á akstri sínum, Norsk Dans nr. 2 eftir Edvard Grieg. Staðreyndin er hins vegar sú að margir Norðmenn leggja fæð á ísbílinn fyrir vikið og er hann nú orðinn þrætuepli í Bergen. Ljósmynd/Facebook-síða Den Norske Isbilen

Nils Bull, 59 ára gamall íbúi við Fanafjorden í Bergen í Noregi, segir farir sínar ekki sléttar í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Búseta Bull, í Hordnes í Fana, gerir það að verkum að þegar hann ætlar að hafa það náðugt í hengistólnum sínum á veröndinni, horfa yfir fagran Fanafjorden og hugsa um lífið, er honum er nauðugur einn kostur að hlusta á lagið sem ísbíllinn spilar í söluferðum sínum um hverfið – í sjö klukkustundir samfleytt.

„Ég fæ hnút í magann. Þetta er svo ágengt og þrengir sér inn á okkur,“ segir Bull um stef ísbílsins, sem fjölmargir Íslendingar í Noregi kannast líklega við og enginn annar en Edvard Grieg á heiðurinn að, „Norsk Dans nr. 2“. Skýringin á því að Bull neyðist til að hlusta á Grieg í sjö klukkustundir í hvert sinn sem ísbíllinn fer með varning sinn um Fanafjorden, er að bíllinn þræðir allan fjörðinn og hljóð berst mun lengri vegalengd yfir vatni en föstu landi.

„...nú skyldi ég mótmæla“

„Maður verður alveg „kú-kú“ í hausnum,“ segir Bull sem hefur mátt þola verk hins ástsæla norska tónskálds allar götur síðan 1996. Hann hefur þó þraukað. Þar til allar varnir hans brustu loks á hvítasunnudag nú í ár. „Þegar ég hafði heyrt þetta 50 sinnum fór það að hringsnúast í höfðinu á mér. Þá hugsaði ég með sjálfum mér að þetta gengi ekki lengur, nú skyldi ég mótmæla,“ segir Bull.

Og það gerði hann, bréflega til sveitarfélagsins, á þeim forsendum að markaðssetning með hljóðum í friðsælum íbúðarhverfum væri í grundvallaratriðum út í hött. „Þetta er engin nauðsyn á þessum tæknitímum þegar við höfum öpp og SMS sem geta látið vita af því hvar bíllinn er,“ segir hann.

Morten Kolseth, forstjóri fyrirtækisins Den Norske Isbilen, sem rekur 100 slíkar bifreiðar vítt og breitt um landið, er ekki sammála Björgvinjarbúanum. „Fólk þarf að vita að við erum að koma,“ segir Kolseth og bætir því við að auk þess fái fastakúnnar hans SMS-skeyti um ferðir bílsins. Hljóðmerkið sé hins vegar bráðnauðsynlegt, fólk sé misduglegt að athuga skilaboð í símtækjum sínum. Raunar komi flestar kvartanirnar ekki frá fólki sem heyrir í bílnum, heldur fólki sem heyrir ekki í honum.

Stuðningur hvaðanæva

Bréf Bull til sveitarfélagsins féll dautt og ómerkt. Ísbílarnir þurfi ekki leyfi fyrir hljóðum sínum, sveitarfélagið hafi því aldrei veitt slíkt leyfi og geti þar með ekki svipt bílana því heldur. Lögreglusamþykktir sveitarfélaga geta hins vegar bannað að vakin sé athygli á sölustarfsemi með hljóðum eða ljósum. Slíkt bannar lögreglusamþykkt Óslóar að nokkru leyti – en ekki samþykkt lögreglunnar í Bergen.

Katrine Nødtvedt, bæjarfulltrúi menningarmála í Bergen, segir markaðssetningu með hljóðum ekki hafa verið vandamál í bænum fram til þessa. „Þegar okkur berast tilkynningar um slíkt er ætlast til að við metum þær, það er á hreinu. En þar vegast auðvitað bara á ólík sjónarmið,“ segir hún.

NRK fjallaði í fyrsta sinn um málið á þriðjudaginn og viti menn. Síðan hafa Nils Bull, sem hlýða má á ísbílinn sjö tíma í senn, borist ótal stuðningsyfirlýsingar hvaðanæva. Jafnvel frá fólki sem kinnroðalaust kveðst hata ísbílinn.

„Það kemur mér á óvart hve margir segjast hata ísbílinn,“ segir Bull, „sjálfur nota ég ekki það orð, það er býsna sterkt, en ég sé að þetta er mikið tilfinningamál hjá fólki.“ Meðal þeirra, sem sent hafa honum erindi, er Merete Møller Korneliussen, en hundurinn hennar, hinn ellefu ára gamli Baloo, ærist af skelfingu í hvert sinn sem hann heyrir Grieg hljóma úr hátölurum ísbílsins. „Hann ofandar og fer að slefa, ég næ engu sambandi við hann. Ég óttast að þetta valdi honum heilsutjóni,“ segir Korneliussen.

Gæti reyndar varðað við lögreglusamþykkt

Nú hafa bæjaryfirvöld í Bergen hins vegar ákveðið að skoða málið betur, eftir því sem Veronika Lien Nilssen, deildarstjóri lögfræðideildar umhverfissviðs Bergen, tjáir NRK. „Við ætlum að líta betur á þetta með tilliti til þess hvort sækja þurfi um leyfi samkvæmt lögreglusamþykkt,“ segir hún, en í deild hennar hafi nú verið komist að þeirri niðurstöðu að ísbíllinn falli hugsanlega undir 2. málsgrein 3. greinar lögreglusamþykktar bæjarins sem fjallar um frið og ró á almannafæri.

Þessu fagnar Nils Bull eftir 25 ára þrautagöngu. „Þetta finnst mér mjög jákvætt [...] Í bæ eins og Bergen er það löngu tímabært að reisa skorður við markaðssetningu með hljóðum,“ segir hann sigri hrósandi.

Kolseth forstjóri kýs að taka ekki afstöðu til hugsanlegra breytinga á meðan þær hafa ekki verið gerðar. „Við höfum notað þetta í 25 ár og það hefur virkað vel. Verði þessu breytt tökum við á því þá,“ segir hann. „Ísbíllinn er rótgróinn og hefur verið þekkt fyrirbæri í norsku samfélagi í 25 ár,“ lýkur forstjórinn máli sínu um þessa sérstöku deilu.

Hér fyrir neðan geta áhugasamir hlustað á stef norska ísbílsins, „Norsk Dans nr. 2“ eftir Edvard Grieg.

NRK

NRKII (fyrsta viðtal við Bull)

Hadeland.no (læst áskriftarsíða)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert