Átta ára hægrisveiflu gæti lokið í dag

Grímuklæddur forsætisráðherra á lokametrunum, eða hvað? Líklegt þykir að sól …
Grímuklæddur forsætisráðherra á lokametrunum, eða hvað? Líklegt þykir að sól hnígi loks til viðar í veldi Ernu Solberg þegar talið verður upp úr norskum kjörkössum í kvöld. Verkamannaflokkur Støre hefur tölfræðina með sér í skoðanakönnunum en spyrjum að leikslokum. AFP

Norðmenn leggja atkvæði sín á vogarskálarnar í kosningum til Stórþingsins sem fara fram í gær og í dag. Sé að marka fjölda kannana á huga norskra kjósenda lýkur átta ára valdatímabili Hægriflokks Ernu Solberg forsætisráðherra með þessum kosningum, en sé litið til meðaltals þeirra kannana sem lagðar hafa verið fyrir í september nýtur Verkamannaflokkur Jonas Gahr Støre 24 prósenta fylgis á móti 19,3 prósentum til Hægriflokksins.

Sjálf mætti Solberg á kjörstað í sínum gamla heimabæ Bergen klukkan hálfellefu að norskum tíma í morgun. „Ég vil gjarnan kjósa á sjálfan kjördaginn til að upplifa hann sem kjördag,“ sagði Solberg við norska ríkisútvarpið NRK í morgun, „ég hef mjög gaman af kosningabaráttu og hefði alveg viljað fá eina viku í viðbót,“ sagði forsætisráðherra enn fremur.

Draumastjórn Støre

Solberg kveðst stefna ótrauð á 25 prósenta fylgi hvað sem öllum könnunum líður. „Kosningadagurinn er alltaf hátíðlegur og skemmtilegur. Ég veit ekkert hvernig þetta fer samt, núna kveða kjósendur upp sinn dóm og svo ræðum við það sem þarf að ræða eftir kosningar.

Eins og staðan er nú lítur ekki út fyrir að nokkur möguleg stjórnarsamsetning nái hreinum meirihluta eða 85 þingsætum. Draumastjórn Støre, Verkamannaflokkurinn, Miðflokkurinn og Sósíalíski vinstriflokkurinn, mega eiga von á 81 sæti í samanlögðu sé mark að könnunum.

Nordland, Hedmark og Akershus, þau tvö síðastnefndu heita reyndar núna Innlandet og Viken, eru afgerandi fylki hvað Verkamannaflokkinn snertir og geta aðeins örfá þúsund atkvæða kosið Støre örlög þar þótt vissulega teljist flokkur hans sigurstranglegur á landsvísu.

Upphitunarhljómsveit og stuðningsmaður

„Við erum nálægt markinu,“ segir Støre við norska dagblaðið VG, „okkur vantar nokkur hundruð atkvæði. Spurningin er hvort þú viljir Lísu eða Ernu,“ segir hann og vísar þar til Ernu Solberg og Lisu Selnes sem skipar þriðja sætið á lista Verkamannaflokksins í Hedmark.

„Núna er ég eiginlega hvort tveggja upphitunarhljómsveit og stuðningsmaður,“ segir Støre um ferðalag sitt um örlagafylkin þrjú um helgina. Við erum á lokametrunum núna og það er einmitt á þeim metrum sem svo margir kjósendur gera upp hug sinn.“

NRK

VG

Dagbladet

Tidens Krav

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert