Biðla til almennings varðandi 20 ára morðmál

Sundurskorið líkið fannst í ánni Thames 21. september fyrir 20 …
Sundurskorið líkið fannst í ánni Thames 21. september fyrir 20 árum. AFP

Breska lögreglan óskaði í dag eftir upplýsingum frá almenningi í tengslum við 20 ára gamalt óleyst morðmál. Þá fannst búkur ungs drengs í ánni Thames, en grunur leikur á að drengurinn hafi verið myrtur í einhverskonar fórnarathöfn. 

Líkið fannst 21. september árið 2001. Líkið var án höfuðs, handleggja og fóta. Búkurinn var aðeins klæddur í appelsínugular stuttbuxur. Talið er að hann hafi verið á bilinu fjögurra til sjö ára gamall. 

Lögreglan, sem segir að drengurinn hafi verið skorin á háls, telur að hann hafi verið fluttur frá Afríku og síðan myrtur í fórnarathöfn. 

Lundúnalögreglan sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem óskað er eftir ábendingum frá fólki sem hafi einhverja vitneskju um málið. 

Alls hafa þrír verið handteknir í tengslum við málið. En …
Alls hafa þrír verið handteknir í tengslum við málið. En öllum hefur verið sleppt án ákæru. AFP

Sendir til Suður-Afríku

Við upphaf rannsóknarinnar voru bein drengsins skoðuð sem leiddi í ljós að drengurinn hafi komið frá Nígeríu. Ekki er vitað hvað hann hét en lögreglan hefur notað nafnið Adam í tengslum við lögregluaðgerðina. 

Breskir rannsóknarlögreglumenn voru m.a. sendir til Suður-Afríku á sínum tíma þar sem þeir ráðfærðu sig við sérstaka lögregludeild sem rannsakar dulspekileg málefni. Þá kallaði þáverandi forseti S-Afríku, Nelson Mandela, eftir því að heimsbyggðin legðist á eitt til að leysa þetta óhugnanlega mál. 

Í Suður-Afríku eru svokölluð muti-dráp þekkt, þar sem skottulæknar nota líkamshluta til að útbúa seið til svartagaldurs. 

Lögreglumenn frá Bretlandi ferðuðustu einnig til Nígeríu. Þar trúa margir íbúar enn á mátt galdurs og galdaathafna, sem kallast juju. Sú trú er sterk í suðvesturhluta landsins, þar sem kristnir eru í meirihluta. Einnig í nágrannaríkinu Benín. 

Sumar juju-athafnir fara þannig fram að líkamshlutar eru notaðir. Árlega koma upp nokkur mál þar sem fólk er myrt eða því rænt í tengslum við slíka trúarathafnir. 

Drengurinn kom frá Nígeríu til Bretlands. Talið er að hann …
Drengurinn kom frá Nígeríu til Bretlands. Talið er að hann hafi verið á aldursbilinu fjögurra til sjö ára gamall þegar hann lést. AFP

Munum ekki gleyma drengnum

„Það er ótrúlega dapurt og pirrandi að morðið á Adam sé enn óleyst,“ segir yfirlögregluþjónninn Kate Kieran. 

„Við höfum og munum ekki gleyma þessum unga dreng. Hann átti betra skilið og við munum ekki gefast upp.“

Lögreglan hefur handtekið þrjá í tengslum við málið á sl. 20 árum en öllum hefur verið sleppt án þess að ákæra hafi verið gefin út. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert