Sjálfkeyrandi bílar valda usla í botnlöngum

Sjálfkeyrandi bíll frá fyrirtækinu Waymo.
Sjálfkeyrandi bíll frá fyrirtækinu Waymo. AFP

Íbúar botnlangagötu í San Fransisco í Kaliforníu eru orðnir langþreyttir á sjálfkeyrandi bílum sem keyra þangað í tíma og ótíma.

Bílar frá fyrirtækinu Waymo, sem býður upp á þjónustu með sjálfkeyrandi bílum, hafa sérstaklega fjölmennt í botnlangann eins og íbúar þar greindu frá í viðtali við fréttastöðina KPIX.

Í frétt BBC um málið segir að íbúar götunnar segi ástandið stundum svo slæmt að sjálfkeyrandi bílar bíði í röðum, hver eftir öðrum, á meðan hver og einn tekur fjölpunkta beygju til þess að snúa við í botnlanganum og halda þá leið sem hann kom.

Bílarnir séu að fara eftir umferðarreglum og létta á umferð

Forsvarsmaður Waymo segir um það að bílarnir séu bara að fylgja umferðarreglum í götunni. Hann segir sömuleiðis að bílarnir leiti í rólegar götur til þess að létta undir þungri umferð í San Fransisco.

„Suma daga geta bílarnir orðið allt að 50 talsins,“ segir Jennifer King við KPIX.

„Þeir koma bókstaflega bara á fimm mínútna fresti. Og við erum öll að vinna að heiman þannig þetta er það sem maður heyrir út um gluggann.“

Elon Musk, forstjóri Tesla, sem sjálfur framleiðir sjálfkeyrandi bíla, brást við fréttum af málinu á twittersíðu sinni.

Þar skrifar hann athugasemd undir frétt um málið með einföldum skilaboðum: „Haha.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert