Frakkar banna minkaeldi og höfrungasýningar

Frakkar banna minkeldi með nýrri dýraréttindalöggjöf.
Frakkar banna minkeldi með nýrri dýraréttindalöggjöf. AFP

Franska þingið samþykkti í dag nýja dýraréttindalöggjöf sem bannar notkun villtra dýra á sirkussýningum, minkaeldi og höfrungasýningar. Löggjöfin er sögð vera sögulegt skref í dýraréttindabaráttunni.

Lögin taka gildi eftir tvö ár. Þá verða sýningar með villtum dýrum eins og ljónum, tígrisdýrum eða björnum bannaðar. Eftir sjö ár verður sömuleiðis bannað að eiga villt dýr. Einnig verður lagt bann við höfrungasýningum og minkaeldi. 

Allt að ellefu milljónir í sekt

Auk aðgerðanna sem beinast að sirkusum munu nýju lögin hækka hámarksrefsingu fyrir slæma meðferð á dýrum í allt að fimm ára fangelsi og sekt upp að 75.000 evrum sem samsvara ellefu milljónum íslenskra króna. Auk þess verða reglur um sölu gæludýra hertar.

Sirkuseigendur hafa fordæmt lögin en baráttumenn fyrir réttindum dýra hefðu sumir viljað sjá stærri skref tekin. 

„Það mun óumflýjanlega koma sá dagur þegar við munum ræða viðkvæm mál eins og veiðar og nautaat,“ sagði einn meðflutningsmaður laganna Loic Dombreval.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert