Fyrsta smitið hafi komið upp hjá fisksala

Veiran hefur valdið verulegum usla um allan heim. Vandræðin byrjuðu …
Veiran hefur valdið verulegum usla um allan heim. Vandræðin byrjuðu í Wuhan. AFP

Sú sem fyrst smitaðist af kórónuveirunni svo vitað sé var sölukona á markaði í kínversku borginni Wuhan, ekki endurskoðandi sem virtist ekki hafa haft nein tengsl við markaðinn, eins og áður var talið, samkvæmt nýrri bandarískri rannsókn. 

Guardian greinir frá.

Smitið hjá endurskoðandanum hefur valdið vangaveltum um það hvort kórónuveiran hafi í raun lekið út af rannsóknarstofu í Kína. Niðurstöður bandarísku rannsóknarinnar eru aftur á móti þær að kórónuveiran hafi líklega smitast frá dýrum til manna á markaðnum, ekki lekið frá rannsóknarstofu.

Enn er óljóst hvaðan veiran kom nákvæmlega. Hefur það valdið mikilli spennu á milli Bandaríkjanna og Kína.

Sameiginleg rannsókn kínverskra yfirvalda og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar gerði sannarlega ekki út um kenninguna um að kórónuveiran ætti upptök sín að rekja til rannsóknarstofu. Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að líklegast væri að mannfólk hefði smitast náttúrulega af veirunni, líklega í gegnum villt dýr. 

Veirusmitin sérstaklega tengd hluta þar sem þvottabirnir voru geymdir

Teymi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar varði fjórum vikum í og í kringum Wuhan með kínverskum vísindamönnum. Í niðurstöðum rannsóknarinnar kom fram að veiran hefði líklega smitast frá leðurblökum til fólks í gegnum annað dýr en að frekari rannsókna væri þörf. 

Umræddur endurskoðandi, sem víða var talinn hafa verið sá fyrsti sem smitaðist af kórónuveirunni, greindi frá því að hann hefði fyrst sýnt einkenni Covid-19 þann 16. desember árið 2019, nokkrum dögum síðar en áður var talið, sagði Michael Worobey sem leiddi bandarísku rannsóknina sem birt var í vísindatímaritinu Science í gær. 

„Einkenni hans brutust út eftir að nokkur tilvik kórónuveirunnar höfðu komið upp hjá fólki sem starfaði á Huana-markaðnum. Kvenkyns fisksali var því fyrsta manneskjan sem smitaðist af veirunni, svo vitað sé, en hún veiktist 11. desember,“ segir í rannsókninni. 

Niðurstöður bandarísku rannsóknarinnar eru þær að mjög líklegt verði að teljast að veiran hafi smitast til manna í gegnum lifandi dýr á markaðnum. Veirusmitin eru sérstaklega tengd vesturhluta markaðarins þar sem lifandi þvottabirnir voru í búrum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert