Drap eiginkonu sína með slöngubiti

Kóbraslanga. Þó ekki sú sem var notuð í morðinu. Þessi …
Kóbraslanga. Þó ekki sú sem var notuð í morðinu. Þessi er bara úr safni. AFP

Móðir hinnar indversku Uthru fann dóttur sína þar sem hún lá hreyfingarlaus á rúmi á heimili fjölskyldunnar í maí fyrra. Hún var látin. Krufning leiddi í ljós að nokkrum klukkustundum áður hafði hún verið bitin af baneitraðri indverskri kóbraslöngu. Þó til að byrja með hefði allt litið út fyrir að slangan hefði verið morðingi Uthru hefur nú komið í ljós að það var í raun eiginmaður hennar, sem notaði slönguna sem vopn. 

CNN greinir frá. 

Slöngu- og snákabit eru ekki óalgeng á Indlandi og hefði mál Uthru því vel geta verið afgreitt sem einungis það, andlát af völdum slíks bits. En fjölskylda Uthru sætti sig ekki við þá skýringu og kvartaði til lögreglu. 

Í kjölfarið var ekkill Uthru sóttur til saka og síðar sakfelldur. Dómarinn komst nefnilega að þeirri niðurstöðu að þó kóbraslangan hafi drepið Uthru væri ekkillinn sá sem hafði komið því í kring og þannig myrt eiginkonu sína. En þetta var ekki í fyrsta sinn sem ekkillinn hafði notað snák sem vopn. 

Vildi græða á Uthru

Ekkillinn heitir Suraj Kumar en hann og Uthra, sem notaði aldrei eftirnafn, giftu sig árið 2018. 

„Við vildum finna einhvern sem gæti gert hana hamingjusama,“ sagði bróðir hennar Vishu við CNN. „Hún var svolítið öðruvísi og hafði átt erfitt í skóla. Við vildum finna handa henni mann sem myndi sjá um hana.“

Samkvæmt dómnum yfir Kumar giftist hann Uthru vegna þess sem hann myndi græða á því fjárhagslega. Þegar þau giftust fékk Kumar í sinn hlut 720 grömm af gulli, bíl og 500.000 indverskar rúpíur, að það sem nemur um tæpri milljón íslenskra króna. 

Fyrstu mánuðir hjónabandsins virtust nokkuð tíðindalitlir. Eftir tæpt ár eignuðust þau son. En áður en langt var um liðið vildu foreldrar Kumars að foreldrar Uthru hjálpuðu ungu hjónunum verulega fjárhagslega. Foreldrar Kumars kröfðust þess að foreldrar Uthru greiddu fyrir ýmsar heimilisvörur, bíl, húsgögn, framkvæmdir og skólagjöld systur Kumars. 

„Uthra sá aldrei neitt slæmt í fólki,“ sagði Vishu. „Hún áttaði sig ekki á því að hann var að nota hana.“

Faðir Uthru sagði við dómarann að hann hafi mætt öllum kröfum foreldra Kumars og greitt honum 8.000 rúpíur, eða það sem nemur um 14.000 krónum, mánaðarlega fyrir að sjá um Uthru. Kumar varð sífellt ósáttari með Uthru og fór að skipuleggja morðið á henni árið 2019, samkvæmt dómnum. 

Tvær morðtilraunir með snákum

Seint árið 2019 virtist Kumar hafa byrjað að þróa með sér þráhyggju fyrir snákum. Hann vafraði klukkustundum saman á Internetinu og horfði á myndskeið af snákum, til að mynda frá „Snákameistaranum“ sem heitir í raun Vava Suresh. 

1. október sama ár reyndi Kumar að drepa eiginkonu sína með því að færa snák inn á heimilið og ginna Uthru svo inn í herbergi þar sem snákurinn var. En Uthra sá snákinn og náði að forða sér. Kumar geymdi snákinn í plastpoka og reyndi aftur þann 2. mars í fyrra. Þá hafði hann sett svefnlyf í mat Uthru og fengið snákinn til að bíta hana. Uthra lést ekki við banatilræðið en kvaldist mjög og þurfti að liggja á spítala í 52 daga. 

Þegar hún var loksins útskrifuð gat hún ekki gengið og foreldrar hennar ákváðu að sjá um hana. Aðeins 15 dögum eftir að hún útskrifaðist reyndi Kumar aftur með því að smygla kóbraslöngu inn á heimili foreldranna. Hann gaf Uthru safa sem hann hafði blandað svefnlyfjum í og henti svo slöngunni í hana þar sem hún lá sofandi. Slangan hafði lítinn áhuga á að bíta Uthru svo að Kumar þrýsti höfði slöngunnar að Uthru og neyddi slönguna til að bíta Uthru tvisvar sinnum. Afleiðingarnar voru þær að Uthra lést.

Þrátt fyrir að Kumar hafi reynt að láta atvikið líta út fyrir að vera slys voru ýmsar vísbendingar til staðar um að bitin hefðu ekki átt sér stað með náttúrulegum hætti. Þá var talið algjörlega ómögulegt að kóbraslangan hefði komist inn í herbergið af sjálfsdáðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert