Kveikti í sóttkvíarhótelinu sem hún dvaldi á

Yfir 160 manns voru flutt á brott úr byggingunni meðan …
Yfir 160 manns voru flutt á brott úr byggingunni meðan eldurinn dreifði sér en slökkviliði tókst að slökkva í eldinum áður en verr fór. Enginn hlaut skaða af. Ljósmynd/BBC

Áströlsk kona hefur verið ákærð fyrir íkveikju eftir að hafa, að því er fullyrt er, kveikt eld í herbergi á sótkvíarhóteli sem hún dvaldi á. Fjallað er um málið á vef breska ríkisútvarpsins en konan er sögð hafa kveikt eldinn í morgun undir rúmi herbergisins sem hún deildi með tveimur börnum. 

Yfir 160 manns voru flutt á brott úr byggingunni meðan eldurinn dreifði sér en slökkviliði tókst að slökkva eldinn áður en verr fór. Enginn hlaut skaða af.

Þekkt fyrir strangar landamærareglur

Ástralar hafa verið þekktir fyrir gríðarlega strangar reglur á landamærum sínum á meðan faraldurinn hefur geisað, en í um 20 mánuði voru landamæri þeirra að mestu leyti lokuð.

Fyrr í vikunni var greint frá því að Ástralar myndu hefja tilslakanir á landamærum sínum um mánaðamótin en í morgun var síðan ljóst að hið nýja afbrigði kórónuveirunnar, Ómíkron, væri komið þangað til lands.

Öllum óbólusettum ferðamönnum, þar með töldum Áströlum sem hyggjast ferðast milli svæða, er nú skylt að dvelja í 14 daga á sóttkvíarhóteli við komuna til landsins.

Ekki er enn vitað hvers vegna konan kveikti eldinn en óhætt er að álykta að hún hafi eflaust ekki líkað dvölin á hótelinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert