Flóttamannavandinn veldur pólitískum usla

Frá fundi innanríkisráðherra Frakklands, Belgíu og Þýskalands í Calais í …
Frá fundi innanríkisráðherra Frakklands, Belgíu og Þýskalands í Calais í Frakklandi í gær. AFP

Innanríkisráðherrar Frakklands, Belgíu og Þýskalands funduðu í gær í Calais í Frakklandi um vandann sem hefur fylgt fjölgun þeirra flóttamanna sem reyna að komast yfir Ermarsundið á smábátum. Fundurinn í var haldinn í kjölfar þess að 27 flóttamenn létust á leið sinni yfir Ermasundið í síðustu viku. 17 karlmenn, sjö konur og þrjú börn vonuðust eftir að fá hæli í Bretlandi en um er að ræða mannskæðasta sjóslys flóttafólks á Ermarsundinu.

Innanríkisráðherra Bretlands, Priti Patel, var afboðuð á fundinn eftir að Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands sendi Emmanuel Macron Frakklandsforseta bréf í síðustu viku á Twitter. Í bréfinu lagði Johnson til að Frakkar tækju þegar í stað við öllu því flóttafólki sem hefur komið til Englands eftir að hafa siglt yfir Ermarsundið. Eftir að Bretar gengu úr Evrópusambandinu hafa þeir ekki rétt á að senda flóttafólks aftur til Evrópu við komuna til landsins.

Þá sagði Johnson að ef Frakkar taki við flóttafólkinu þá muni það draga verulega úr, jafnvel alfarið stöðva, þessar siglingar. Það myndi bjarga mörg þúsund mannslífum með því að eyðileggja viðskipti glæpasamtaka sem stundi mansal með þessum hætti.

Macron sagði tillögur Johnson „ekki vera alvarlegar“ og hafnaði þeim. Frönsk stjórnvöld urðu einnig fyrir vonbrigðum með að bréfið var gert opinbert áður en þau fengu það í hendur.

Kenna hvor öðrum um

„Frakkland kennir Bretlandi um, Bretland kennir Frakklandi um,“ sagði Lisa Nandy, skuggautanríkisráðherra Bretlands, í viðtali við Sky News um stöðuna. „Sannleikurinn er sá að báðar ríkisstjórnir taka þátt í leik sem snýst um að saka hvor aðra á meðan börn drukkna við strandlengjuna. Það er einfaldlega samviskulaust,“ sagði hún og bætti við að ríkisstjórnir beggja ríkja Ermarsundsins ættu að leggja ágreining sinn til hliðar og vinna að sameiginlegu markmiði. „Þetta er sameiginlegt vandamál sem einungis verður leyst með sameiginlegri lausn.“

Breska innanríkisráðuneytið sendi yfirlýsingu frá sér í gær þar sem sagði að Patel hafði rætt við Ankie Broekers-Knol, innflytjendamálaráðherra Hollands. „Harmleikur atburða síðustu viku sýna mikilvægi samstarfs Evrópuríkja,“ sagði í yfirlýsingunni.

Vakta strandlengjuna

Eftir fundinn sagði innanríkisráðherra Frakklands, Gerald Darmanin, að samstarf þyrfti að ríkja við Bretlandi. „Bretland yfirgaf Evrópu, en ekki heiminn.Við þurfum að vinna að þessum vanda án þess að vera gísl breskra innanríkisstjórnmála.“ Stephan Mayer, undirmaður þýska innanríkisráðherrans, sagði eftir fundinn að mikilvægt væri að stofna til nýs samkomulags um málefni flóttafólks á milli Bretlands og Evrópusambandsins í stað Dyflinnarreglugerðarinnar.

Þá sagði Dramanin að ríkin öll yrðu vinna saman gegn glæpasamtökunum sem stunda mannsal. „Aðalmálefnið á þessum fundi var baráttan gegn smyglurum sem nýta sér landamæri okkar og ríki. Aukning í fólksflutningum heldur áfram og eykst stöðugt,“ sagði Darmanin. Vitað er að mörg glæpasamtakanna aðhafast í Belgíu, Hollandi og Þýskalandi þar sem að þar sé hægt að kaupa björgunarvesti án þess að vekja grunnsemdir yfirvalda. Þeim sé síðan smyglað ásamt flóttafólki til Norður-Frakklands þar sem það reynir við siglinguna til Bretlands. Frönsk stjórnvöld segjast hafa handtekið fimm einstaklinga á landamærum Belgíu í síðustu viku í tengslum við sjóslysið í vikunni. Þau segjast hafa bjargað alls 7.800 einstaklingum á Ermarsundinu frá byrjun árs og handtekið 1.500 smyglara.

Á fundinum voru einnig viðstödd Ylva Johansson, framkvæmdastjóri innanríkismála hjá Evrópusambandinu, fulltrúar landamærastofnunnar (Frontex) og löggæslustofnun (Europol) Evrópusambandsins. Frá og með 1. desember mun Frontex vakta strandlengjuna frá Frakklandi til Hollands allan sólarhringinn með flugvélum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert