Skotárásin sem breytti Noregi

Skyrtan sem William Nygaard klæddist að morgni 11. október 1993 …
Skyrtan sem William Nygaard klæddist að morgni 11. október 1993 þegar hann var skotinn þremur 12 mm Federal Hydrashock-kúlum í bakið. Ein kúlnanna fór þvert í gegnum útgefandann og fannst á vettvangi, hinar voru fjarlægðar úr honum á Ullevål-sjúkrahúsinu. Ljósmynd/Lögreglan í Ósló

Kaldan morgun 11. október haustið 1993 yfirgaf William Nygaard, forstjóri norska bókaforlagsins Aschehoug, heimili sitt við Dagaliveien í Holmenkollåsen í Ósló á leið til vinnu. Þegar hann kom að bifreið sinni veitti hann því athygli að vinstri hjólbarði að framan var sprunginn. Nygaard opnaði bifreiðina, seildist eftir tólinu á bílasíma af gömlu gerðinni og hugðist hringja á leigubíl.

Honum tókst aðeins að slá inn fyrstu tvo stafina í númerinu áður en hann fékk gríðarþungt högg í bakið og fannst sem hann væri sviptur allri hreyfigetu líkamans. Hans fyrsta hugsun var að hann hefði fengið raflost gegnum símann sem var beintengdur rafgeymi bifreiðarinnar.

„Ég fann svo annað högg, öskraði upp og hugsaði með mér að ég yrði að koma mér undan rafstraumnum,“ sagðist Nygaard síðar frá. „Þegar ég kom að brekkunni [við húsið] fann ég þriðja höggið, rúllaði niður hallann og lá þar.“

Dauðadómurinn frá Íran

Óvíst er að bókaútgefandinn hefði lifað lengur en til 11. október 1993 hefði Helga nokkur Waagaard ekki verið í heimsókn hjá nágranna Nygaard og heyrt hrópað á hjálp. Hún hljóp út og kom að Nygaard þar sem hann lá ósjálfbjarga í grasinu, sótti teppi til að halda á honum hita og hringdi á sjúkrabíl.

Skorið hafði verið á hjólbarða bifreiðar Nygaard, líklega til að …
Skorið hafði verið á hjólbarða bifreiðar Nygaard, líklega til að tefja hann á meðan tilræðismaðurinn laumaði sér í skotfæri með brugðna Dan Wesson 44 kalíbera skammbyssu. Ljósmynd/Lögreglan í Ósló

Ekkert blóð var sjáanlegt á líkama Nygaard sem var klæddur þykkum leðurfrakka. Það litla sem hann man af akstrinum á sjúkrahúsið var skelfilegur sársaukinn við hverja ójöfnu sem sjúkrabifreiðin ók yfir og af ójöfnum og ónýtu malbiki er enginn hörgull á götum norsku höfuðborgarinnar.

Það var ekki fyrr en á bráðamóttökunni á Ullevål-sjúkrahúsinu sem ljóst varð að forstjóri Aschehoug-bókaútgáfunnar hafði verið skotinn þrisvar sinnum í bakið. Vakthafandi bráðalæknir kannaðist mætavel við Nygaard, var vel upplýstur um málefni samfélagsins og því kunnugt um að Nygaard hafði dauðadóm frá Íran hangandi yfir sér sem kveðinn var upp 14. febrúar 1989. Læknirinn hafði enn fremur lesið bókina sem Aschehoug-forlagið gaf út í norskri þýðingu 11. apríl 1989 í kjölfar gríðarlegra mótmæla 3.000 múslima á götum Óslóar. Bókina Söngva satans eftir indversk-breska rithöfundinn Salman Rushdie.

Dauðadóminn, eða fatwa, hafði Ruhollah Mostafavi Moosavi Khomeini, æðsti leiðtogi Írans í kjölfar byltingarinnar 1979, kveðið upp og náði dómsorðið ekki aðeins til Rushdie sjálfs, heldur allra þýðenda og bókaútgefenda heimsins sem kæmu nálægt því að gefa bókina út.

Læknirinn hringdi tafarlaust í lögregluna sem sendi mannskap að heimili Nygaard í Holmenkollåsen. Þar með hófst lögreglurannsókn sem stendur enn þann dag í dag og skilaði árið 2018 tveimur grunuðum – verr gengur þó að sanna nokkuð á þá.

Höggbylgja um norskt samfélag

Fjöldi lögreglumanna var samstundis sendur að öllum ferjulægjum í Ósló og nágrenni og á flugvöllinn á Fornebu, en þetta var fimm árum áður en Gardermoen-flugvöllurinn opnaði árið 1998. Eins var litið inn í allar bifreiðar sem óku um tollstöðina við Svínasund, en þó ekki fyrr en eftir klukkan 18 um kvöldið þar sem óljóst var í fyrstu hvort tollgæsla eða lögregla skyldi annast eftirlitið. Það var því ekki fyrr en níu klukkustundum eftir tilræðið við Nygaard sem eftirlit var komið á með öllum sem fóru frá Noregi. Auk þess höfðu lögregluþjónar á vettvangi takmarkaðar upplýsingar, þeim hafði aðeins verið sagt að leita að múslimum.

William Nygaard komst til heilsu eftir skotárás sem auðveldlega hefði …
William Nygaard komst til heilsu eftir skotárás sem auðveldlega hefði getað kostað hann líftóruna auk þess sem skotin þrjú breyttu Noregi, í fyrsta sinn stóð þessi litla Norðurlandaþjóð frammi fyrir hryðjuverkum í eigin ranni, árás á sjálft tjáningarfrelsið. Ljósmynd/Wikipedia.org/Eirik Solheim

Árásin á Nygaard sendi hreina höggbylgju um norskt samfélag. Í heimi bókaútgefenda efaðist enginn um samhengi málsins. Nygaard var útgefandi Söngva satans, bókar sem trúarleiðtogar múslima álitu guðlast, meðal annars vegna þess að Rushdie færir Múhameð spámann þar inn í heim skáldlegrar frásagnar auk þess sem hann gefur í skyn að sum vers Kóransins séu komin frá kölska sjálfum.

Lögreglan kaus þó að tengja tilræðið ekki við bók Rushdie eingöngu. „Við höldum öllum möguleikum opnum, en horfum ekki fram hjá tengingu við útgáfu þessarar tilteknu bókar,“ sagði Truls Fyhn, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar í Ósló, á blaðamannafundi á sínum tíma

„Stöðvið bókina í Noregi!“

Nokkrum árum áður, í febrúar 1989, stóð lögreglan í Ósló frammi fyrir heilmiklu verkefni eftir að Khomeini æðstiklerkur hafði kveðið upp fatwa-úrskurð sinn, dauðadóm yfir öllum sem kæmu að útgáfu Söngva satans. Í London var höfundinum Rushdie þegar komið í öruggt skjól og í Ósló vaktaði lögregla húsnæði Aschehoug-útgáfunnar, heimili forstjórans og þeirra þýðenda er að bókinni komu.

Laugardaginn 26. febrúar sama ár upplifðu Norðmenn nokkuð sem aldrei áður hafði sést þar í landi. Þúsundir múslima gengu fylktu liði um götur Óslóar og kyrjuðu fullum hálsi: „Stöðvið bókina í Noregi!“

Þessu ákalli svaraði Aschehoug-forlagið með því að flýta útgáfu bókarinnar og kom hún út 11. apríl, en með töluvert ólíkri aðferðafræði nokkurri annarri bók sem út hafði komið í Noregi. Sendibílar í lögreglufylgd óku með eintökin frá útgefanda í bókabúðir. Tveimur dögum síðar gjöreyðilögðust tvær bókaverslanir eftir að rúður þeirra voru brotnar um miðja nótt og bensínsprengjum varpað inn fyrir. Þetta voru Rykkin í Bærum og Viul Bok og Papir í Ósló.

Dirfðust að hitta Rushdie

Sumarið 1991 var ráðist á tvo þýðendur Söngva satans með viku millibili, hinn ítalski Ettore Caprioli lifði naumlega af hnífstunguárás á heimili sínu í Mílanó en japanski þýðandinn Hitoshi Igarishi var ekki til frásagnar eftir að hann var stunginn sex sinnum á vinnustað sínum. Hvor tveggju málanna eru óleyst og eins bókabúðabrunarnir í Noregi.

Heimili William Nygaard við Dagaliveien í Holmenkollåsen í Ósló.
Heimili William Nygaard við Dagaliveien í Holmenkollåsen í Ósló. Ljósmynd/Lögreglan í Ósló

Er frá leið var slakað á öryggiskröfum kringum höfund bókarinnar og útgefendur hennar í hinum ýmsu löndum og líklega gleyma fáir þáverandi starfsmenn Aschehoug garðveislu forlagsins sumarið 1992, í garðinum við viðhafnarhús fyrirtækisins við Drammensveien í Ósló, reyndar aðeins steinsnar frá sendiráði Írans í Ósló.

Var veislan þar í fullum gangi þegar Salman Rushdie gekk í eigin persónu inn um garðshliðið í fylgd Gudmund Hernes, þáverandi menntamálaráðherra Noregs, en þeir voru leynigestir á vegum forstjórans, William Nygaard. Ljósmyndarar tóku fjölda mynda sem sumar hverjar birtust um allan heim dagana á eftir. Kvöldið áður hafði Rushdie átt fund með Åse Kleveland menningarmálaráðherra. Myndirnar frá heimsókninni urðu táknrænar, í fyrsta sinn síðan Khomeini kvað upp dauðadóm sinn dirfðust fulltrúar ríkisstjórnar einhvers lands að hitta Rushdie. Hefndarþorstinn var þó hvergi slökktur eins og átti eftir að koma í ljós ári síðar.

Federal Hydrashock-kúlurnar

Rannsóknin á tilræðinu haustið 1993 var gríðarlega umfangsmikil. Tvær af þremur byssukúlum höfðu stöðvast í líkama Nygaard og verið fjarlægðar á skurðarborðinu á Ullevål. Sú þriðja fór þvert í gegnum hann, kom út um kviðinn og fannst í mölinni á bílastæðinu. Sú var ekki ókeypis, og heldur ekki vopnið sem henni var skotið úr.

Kúlan var af gerðinni „Federal Hydrashock“, hugvitsamlega hönnuð til þess eins að drepa hvaða lifandi skotmark sem fyrir henni yrði. Þegar Federal Hydrashock-kúla, upphaflega 12 millimetra, hæfir skotmarkið þenst hún út og tæplega tvöfaldar þvermál sitt, verður 23 mm með skelfilegum afleiðingum fyrir manneskju eða dýr sem fyrir verður.

Federal Hydrashock-kúlan sem fór þvert í gegnum Nygaard og fannst …
Federal Hydrashock-kúlan sem fór þvert í gegnum Nygaard og fannst á bílastæðinu við heimili hans. Slíkar kúlur eru hannaðar til þess eins að drepa og þenjast út úr upprunlegum 12 millimetrum í 23 þegar þær hæfa mark sitt. Ljósmynd/Lögreglan í Ósló

Þar sem skotvopnið var með riffluðu hlaupi, og rifflurnar skerast í byssukúluna og mynda á henni för sem jafngilda nánast erfðaefni eða fingrafari skotvopns, leiddi lögreglurannsókn strax í ljós hvert vopnið hefði verið, 44 kalíbera Dan Wesson-skammbyssa með útskiftanlegu hlaupi. Árið 1993 voru 96 slík vopn skráð í Noregi. Lögreglan heimsótti alla eigendurna og skaut prufuskotum úr öllum vopnunum til að bera hlauprákirnar á kúlunum saman við þá sem fór í gegnum bókaútgefandann.

Einn byssueigendanna vakti sérstaka athygli lögreglu. Ali hét sá og hafði keypt sína Dan Wesson-byssu í júní auk þess að kaupa mörg hlaup á hana og gnótt skotfæra sem þenjast út þegar þau hæfa fyrirstöðu. Önnur þáttaskil urðu þó í rannsókninni áður en lögreglan lét til skarar skríða gegn Ali.

Horfðist í augu við tilræðismanninn

Fimm vikum eftir að Nygaard var skotinn við heimili sitt gaf 17 ára gömul stúlka, Tonje Westgaard, sig fram við lögreglu. Hún hafði starfað sem heimilishjálp hjá nágrönnum Nygaard, litið út um gluggann á réttu augnabliki og hreinlega horfst í augu við tilræðismanninn. Westgaard varð frá sér af skelfingu, hún sagði starfi sínu upp sama dag og forðaði sér heim til fjölskyldu sinnar í Toten í Oppland-fylki, nú Innlandet.

Síðar áræddi hún að hafa samband við lögreglu og greina frá morgninum sem henni mun aldrei úr minni líða. Var henni þegar útvegaður teiknari og mynd af tilræðismanninum leit dagsins ljós. Sú var þegar birt í norskum fjölmiðlum og fjöldi vísbendinga streymdi til lögreglu. Einni þeirra fylgdi nafn, nafn sem lögreglan hafði séð áður á farþegalista ferjunnar frá Kiel í Þýskalandi til Óslóar tveimur dögum fyrir tilræðið. Þetta var Khaled Moussawi, 28 ára gamall, fæddur í Bekaa-dalnum í Líbanon.

Teikningin sem listamaður lögreglunnar gerði af tilræðismanninum eftir lýsingu Tonje …
Teikningin sem listamaður lögreglunnar gerði af tilræðismanninum eftir lýsingu Tonje Westgaard sem horfðist felmtri slegin í augu við hann gegnum glugga nágrannanna. Vísbendingarnar streymdu inn og einni þeirra fylgdi nafn. Ljósmynd/Lögreglan í Ósló

Moussawi reyndist hafa sterk tengsl við sjíamúslimsku skæruliðahreyfinguna Hizbollah í Líbanon, sem klerkastjórnin í Íran studdi. Frændi Moussawi var Abas al Moussawi, aðalritari Hizbollah sem ísraelski herinn réð af dögum árið 1992. Ofan í kaupið hafði norsku öryggislögreglunni PST borist orð frá starfssystkinum í Þýskalandi og Svíþjóð um að Moussawi tilheyrði hópi sem hygðist koma upp Hizbollah-deild í Skandinavíu.

Hótaði árásum á norska hermenn í Líbanon

Ítarleg húsleit var framkvæmd á heimili Moussawi og hann yfirheyrður klukkustundum saman. Hvorugt skilaði nokkru haldbæru. Vissulega líktist hann manninum á teikningunni – það eitt sannaði hins vegar ekki neitt. Lögreglu var kunnugt um að Moussawi vandi komur sínar í Anjuman e-Hosseini-moskuna við Rathkes gate í Ósló, mosku sem öryggislögreglan hafði reyndar lengi fylgst með, enda ræktu margir starfsmanna íranska sendiráðsins tíðir þar.

Moussawi viðurkenndi fúslega að sækja moskuna auk þess að hafa við fjölda tækifæra verið gestkomandi í sendiráðinu og sá ekkert athugavert við það. Að lokum leiddist honum þófið í yfirheyrslunum og tók að hafa í hótunum við lögreglu sem snerust um að hann ætti vini í Líbanon sem væri í lófa lagið að skipuleggja árásir á norska hermenn sem þar voru á vegum Sameinuðu þjóðanna. Lögregla sá ekki ástæðu til frekari yfirheyrslna en grunur átti eftir að falla á Moussawi á nýjan leik í málinu, árið 2018.

„Við höfum enga lausn í sjónmáli,“ úrskurðaði lögfræðilegur stjórnandi rannsóknarinnar, Sveinung Sponheim, í apríl 1995. Þeim úrskurði fylgdi sú ákvörðun að rannsóknin yrði tekin úr forgangi. Rannsakendur mótmæltu hástöfum. Þetta leit verulega illa út. Augu bókaútgefenda um allan heim beindust að Noregi. Nógu óþolandi var að hvorugur árásarmaðurinn hefði fundist í málum ítalska og japanska þýðandans, gat lögreglan heldur ekki fundið þann sem hafði skotið bókaútgefanda í Ósló fyrir augum vitnis um bjartan dag?

Blóðslóðin frá Dagaliveien

Rannsóknarlögreglan Kripos tók alfarið við málinu – í bili. Í níu mánuði sátu rannsakendur hennar í Bryn í Ósló yfir bunkum af málsskjölum án þess að verða varir. Að lokum sendu þeir frá sér þykka skýrslu um allt sem lögreglan í Ósló hefði misstigið sig við í sinni rannsókn. Hún hefði átt að fylgja sporum sem lágu til Líbanon og Pakistan og íranska sendiráðsins í Ósló og moskunnar og bara út um allt. Rannsóknin var ein stór handvömm að mati Kripos.

Vopnasafnið sem lögregla fann á heimili Ali, Dan Wesson-skammbyssan er …
Vopnasafnið sem lögregla fann á heimili Ali, Dan Wesson-skammbyssan er sú hlauplanga neðst til vinstri. Hann var aldrei formlega grunaður í málinu þrátt fyrir að lögregla kannaði ferðir hans haustið 1993 ítarlega auk vopnakaupa hans um sumarið. Ljósmynd/Lögreglan í Ósló

Ali, sem átti eina af Dan Wesson-skammbyssunum var handtekinn á nýjan leik, ný gögn höfðu komið fram um meint tengsl hans við öfgamenn í Þýskalandi og víðar. Lögregla undirbjó ítarlega yfirheyrslu þegar undarleg skipun barst frá Roger Andresen, þáverandi rannsóknarlögreglustjóra í Ósló, kriminalsjef eins og sú staða hét: Sleppið handtekna.

Þessa skipun gaf Andresen án þess að ráðfæra sig hið minnsta við Magne Eilertsen, tæknilegan stjórnanda rannsóknarinnar, eða þann lögfræðing lögreglunnar sem þá kom að málinu, Sven T. Røer. Síðar lýsti Eilertsen undrun sinni, þegar hann, kominn á eftirlaun, kom fram í heimildarmynd TV2 um málið, Blodsporene fra Dagaliveien, Blóðslóðin frá Dagaliveien: „Okkur var þungt í skapi og við vorum uppgefnir. Við skildum ekkert. Við fengum engin svör um hvers vegna ætti skyndilega að láta hinn handtekna lausan án samráðs við okkur sem áttum að yfirheyra hann. Við fengum aldrei að vita ástæðuna,“ sagði Eilertsen við TV2.

Þrábáðu um að leggja málið niður

Það var svo 19. apríl 2007 sem mál William Nygaard, sem var hársbreidd frá dauðanum að morgni 11. október 1993 vegna útgáfu bókar, var formlega lagt niður vegna „óþekkts árásarmanns“. Nygaard sjálfum var ekki einu sinni tilkynnt formlega um þau málalok.

Síðar játaði Lasse Qvigstad, þáverandi héraðssaksóknari, í Brennpunkt-þætti norska ríkisútvarpsins NRK, að stjórnendur rannsóknarinnar hjá lögreglunni í Ósló hefðu þrábeðið um leyfi til að leggja málið niður. Þeir vildu það alls ekki sem vandræðalegan minnisvarða í tölfræðinni yfir óupplýst mál.

Indversk-breski rithöfundurinn Salman Rushdie varð gríðarlega umdeildur í kjölfar útgáfu …
Indversk-breski rithöfundurinn Salman Rushdie varð gríðarlega umdeildur í kjölfar útgáfu Söngva satans árið 1988 og hlaut dauðadóm, fatwa, írönsku klerkastjórnarinnar fyrir guðlast í garð íslamskra. Ljósmynd/Twitter

„Ég taldi það hafa gríðarlega samfélagslega þýðingu að þetta mál yrði ekki lagt niður,“ sagðist Qvigstad frá, „nýjar upplýsingar hefðu getað skotið upp kollinum sem vert hefði verið að fylgja eftir þótt ekki hefði verið um augljósa slóð vísbendinga að ræða.“ Þegar þessi orð féllu, árið 2012, hafði ríkissaksóknari Noregs, þá Tor-Aksel Busch, farið þess á leit við héraðssaksóknara að hann færi gegnum málið á nýjan leik og legði mat á gæði rannsóknarinnar. Qvigstad fór yfir öll gögn málsins og niðurstaðan varð sú sama og hjá Kripos. Rannsókninni var stórlega ábótavant. Málið var endurvakið.

Vildi einhver hindra rannsóknina?

Samsæriskenningar skutu upp kollinum. Reyndi einhver, eða einhverjir, að vefja rannsókninni á tilræðinu haustið 1993 fjötri um fót? Og hvers vegna þá? Var það af ótta við að styggja klerkastjórnina í Íran?

Willy Haugli, lögreglustjóri í Ósló frá 1985 til 1994, rifjaði málið upp með TV2 sem eftirlaunaþegi. „Enn þann dag í dag nagar það mig að mál með sterk alþjóðleg tengsl liggi óleyst. Það sem mig grunar er að ótti við að komast í ónáð hjá erlendum veldum hafi ráðið þar nokkru um. Ég skil ekki hvers vegna þetta mál koðnaði niður með tímanum. Ég velti því fyrir mér hvort eitthvað hefði átt sér stað sem jafnvel lögreglustjórinn mátti ekki komast á snoðir um,“ sagði Haugli sem lést áður en málið var tekið upp á ný árið 2009.

Salman Rushdie tók í sama streng í viðtali við TV2: „Yfirvöld hafa ekki komið heiðarlega fram í þessu máli. Reynt hefur verið að sveipa sannleikann skýi, það er sorglegt.“ Við Brennpunkt sagði hann: „Enginn kærir sig um að benda á Íran. Vitað er að það bakar vandræði. Þrjú tilræði hafa verið gerð. Öll þeirra skildu eftir sig skýr spor sem lítið var lagt í að rekja.“

Skjölin sem hurfu

Hanne Kristin Rohde hafði fjölda stjórnunarstarfa hjá lögreglunni í Ósló með höndum árin 2002 til 2017. Í kjölfar fyrirspurnar frá fjölmiðlum árið 2008 bað hún um aðgang að öllum málsgögnum. Kom þá í ljós að skýrsla Kripos um rannsókn málsins var ekki meðal þeirra, hún var horfin. Rohde lýsti eftir skýrslunni og fannst þá eintak af henni læst inni í peningaskáp á skrifstofu lögreglustjóra.

Í ljós kom að fjöldi annarra skjala hafði horfið sporlaust úr gagnasafni málsins, skjöl sem enn hafa ekki komið fram. Eins rannsakaði innra eftirlit lögreglunnar þá ákvörðun Roger Andresen að sleppa Ali úr haldi áður en hann var yfirheyrður, manni sem talið var að gæti staðið nær innsta hring málsins. Niðurstaða þeirrar rannsóknar var að ekki þætti ástæða til að kæra Andresen fyrir stórfellt gáleysi í starfi. Sjálfur neitaði Andresen að ræða málið frekar þegar NRK leitaði eftir því við hann.

Kripos setti sex manns í rannsókn málsins við endurupptökuna árið 2009. Örskömmu fyrir fyrningu endurupptökumálsins, árið 2018, lögðu rannsakendur fram skjalfestan grun, siktelse, á hendur tveimur mönnum sem báðir voru löngu farnir frá Noregi. NRK getur upplýst að annar mannanna er hinn líbanski Khalid Moussawi sem lögregla yfirheyrði á sínum tíma. Hinn er nafnlaus eins og sakir standa, en ríkisútvarpinu er þó kunnugt um að sá var sendiráðsritari í íranska sendiráðinu í Ósló árið 1993 og var sendur úr landi með hraði í október 1993. Sendiráðið tilkynnti norskum yfirvöldum um brottför hans 11. október, sama dag og Nygaard var skotinn, en sagði hann hafa yfirgefið landið fjórum dögum áður.

„Hvar eru sönnunargögnin?“

Í október í fyrra, 2021, héldu fréttamenn NRK til Líbanon, höfðu upp á Moussawi, sem kom af fjöllum þegar hann heyrði af grunsemdum í sinn garð, og ræddu málið við hann. „Þótt ég komi úr fjölskyldu þar sem margir hafa tengsl við Hizbollah táknar það ekki að ég hafi eitthvað með þetta mál að gera. Ég neita að hafa komið nálægt þessari manndrápstilraun,“ sagði hann við þá fréttamenn á hótelherbergi í Beirút. „Hvar eru sönnunargögnin? Ég hef ekkert að fela, leggið sönnunargögnin fram.“

Vettvangsmynd lögreglu af heimili bókaútgefandans við upphaf nú áratuga langrar …
Vettvangsmynd lögreglu af heimili bókaútgefandans við upphaf nú áratuga langrar sakamálarannsóknar sem kveikt hefur fleiri spurningar en hún svarar. Var einhverjum í norsku stjórnkerfi í mun að hindra að upplýst yrði hver lagði á ráðin um skotárásina á Nygaard haustið 1993? Ljósmynd/Lögreglan í Ósló

Um þessar mundir eru tæp 30 ár liðin síðan William Nygaard forleggjari var skotinn þremur skotum við heimili sitt. Þremur skotum sem breyttu Noregi. Hryðjuverkastarfsemi var að skjóta þar rótum, ráðist var að sjálfu tjáningarfrelsinu. Var rannsókn málsins stýrt af einhverjum öðrum en stjórnendum hennar? Sá einhver sér hag í að málið upplýstist ekki?

Þegar skotunum þremur var hleypt af við Dagaliveien stóðu viðræður vegna Óslóarsáttmálans svokallaða sem hæst, friðarumleitana Frelsissamtaka Palestínu, PLO, og Ísraelsmanna sem áttu sér stað í Ósló snemmhausts og lauk með undirritun fyrsta hluta sáttmálans í september. Meðal svarinna andstæðinga sáttmálans voru Hizbollah-hreyfingin, hin herskáu palestínsku múslimasamtök Hamas og stjórnvöld í Íran.

„Aldrei í lífinu látið bjóða okkur“

Ósannaðar ásakanir í garð Írana hefðu getað hleypt viðræðunum í uppnám. Skjöl norska utanríkisráðuneytisins um Rushdie og mál honum tengd, sem leynd hefur nú verið létt af, virðast þó ekki styðja kenningar um að þessi ástæða hefði verið nægilega þýðingarmikil til að nokkur hagnaður fengist af ónýtri rannsókn.

„Við sjáum engin merki þess að rannsókninni hafi verið stjórnað pólitískt með nokkrum hætti,“ sagði þáverandi héraðssaksóknari Lasse Qvigstad í Brennpunkt árið 2012.

„Það er með öllu óhugsandi og nokkuð sem við hefðum aldrei í lífinu látið bjóða okkur,“ sagði Leif A. Lier, einn stjórnenda rannsóknarinnar á fyrstu stigum, í sama þætti.

Sendiráð Írans í Ósló þverneitar að fyrrverandi erindreki þess hafi komið nálægt tilræðinu við Nygaard á nokkru stigi.

Hvorki Kripos, ríkislögreglustjóri Noregs né ríkissaksóknari vilja tjá sig nokkuð um mál William Nygaard og banatilræðið gegn honum 11. október 1993.

NRK

NRKII (gert að segja ósatt)

NRKIII (rætt við Moussawi í haust)

NRKIV (sendiráðsmaðurinn)

NRKV (var tilræðið skipulagt í Þýskalandi?)

NRKVI (báðu um að fá að leggja málið á ís)

NRK hlaðvarp (hver reyndi að drepa Nygaard?)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert