Spáð peningaregni á Seychelles-eyjum

Seychelles-eyjar. Þar búa rétt tæplega 100 þúsund manns.
Seychelles-eyjar. Þar búa rétt tæplega 100 þúsund manns. Ljósmynd/Unsplash

Sex manns úr efstu lögum samfélags á Seychelles-eyjum, þar á meðal fyrrverandi forsetafrú, eiga nú yfir höfði sér ákærur fyrir spillingu, vegna 50 milljón dollara (6 og hálfur milljarður króna) sem hurfu. 

Milljónirnar áttu að rata til íbúa eyjanna sem þróunaraðstoð frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum og talið er að þeim hafi verið stolið. Upphæðin er svimandi fyrir þá 100 þúsund eyjaskeggja sem lifa og starfa á Seychelles.

„Þetta var gjöf til okkur Seychelles-búa, en við fengum hana aldrei í hendurnar,“ segir Derrick Labrosse, 25 ára gamall fiskveiðimaður, við BBC

Peningarnir bárust fyrir um 20 árum síðan en eins og bankaskýrslur sem hæstiréttur landsins hefur undir höndum sýna, var þeim veitt inn á bankabækur örfárra aðila í kringum fyrrverandi forseta landsins, Albert René.

Peningarnir voru þvættaðir með hjálp stjórnenda í undirfjármögnuðum stofnunum landsins sem sérstaklega voru einkavæddar til þess að eiga hægara um vik með að fela verksummerkin.

Sexmenningarnir, sem ákærðir eru, hafa ekki enn veitt því viðbrögð að það standi til að ákæra þá.

Barinn biskup leiðir baráttu gegn svindlurunum

Derrick Labrosse er bjartsýnn:

„Ég veit að sitjandi stjórnvöld hafa mikinn áhuga á því að uppræta spillingu,“ segir hann. „Áður fyrr var aðeins talað um slíkt, en nú er verið að góma fólk. Augu Seychelles-búa hafa verið opnuð. Við viljum öll peningana okkar aftur.“

Og hann hefur rétt fyrir sér. Sitjandi þjóðarleiðtogi, Wavel Ramkalawan, hefur eytt síðustu þremur áratugum í andóf. Hann fór fyrir hópi stjórnarandstæðinga sem urðu að starfa í leyni. Sem foringi andófsmanna landsins var hann oft handtekinn af stjórnvöldum, pyndaður og barinn. En enginn verður óbarinn biskup, enda er Ramkalawan biskup. 

Handtökur sexmenninganna hafa vakið mikla von meðal íbúa Seychells-eyja, sem núna sjá mögulega fram á milljónirnar renni óskertar í ríkissjóð landsins.

Við handtökur sexmenninganna og húsleit í kjölfarið komu gríðarstór vopnabúr í ljós. Sakborningarnir höfðu greinilega sankað að sér ýmsum herbúnaði í mörg ár. 

„Af hverju var verið að geyma þessi vopn?“ spurði Ramkalawan í viðtali við BBC. „Ég er ekki hræddur við það sem komið hefur fram í þessu máli, en maður verður greinilega að fara gætilega.“

Peningarnir væntanlegir

Og biskupaforsetinn gæti átt góða daga framundan sem kjörinn leiðtogi Seychelles-eyja. Eftir að ferðamannaiðnaður landsins lagðist í dvala vegna faraldursins er peningagjöf frá stjórnvöldum kærkomin. Talið er að milljónirnar fimmtíu hafi setið á bankabókum um allan heim í tvo áratugi og ávaxtast mikið. Það verður því vonandi glatt á hjalla hjá íbúum þessara agnarsmáu eyja í V-Indlandshafi á næstunni. 

Hið sama verður ekki sagt um þá ákærðu í málinu. Leiðtogi landsins segir að þeir muni gjalda fyrir þann skaða sem þeir ollu þjóðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert