Undirafbrigði Ómíkron geisar í Skandinavíu

Nærri helmingur allra kórónuveirutilfella í Danmörku er nú af völdum …
Nærri helmingur allra kórónuveirutilfella í Danmörku er nú af völdum BA.2-undirafbrigðis Ómíkron. AFP

Á aðeins örfáum vikum hefur þeim sem smitast af undirafbrigði Ómíkron, sem nefnist BA.2, fjölgað til muna í Danmörku. Afbrigðið hefur einnig breiðst út í öðrum löndum en í Danmörku, þar á meðal í Noregi, Svíþjóð og Bretlandi, en þar hefur útbreiðslan ekki orðið nærri jafn hröð.

Útbreiðsla afbrigðisins gefur ekki tilefni til að hafa áhyggjur, segir Anders Fomsgaard, veirufræðingur og yfirlæknir hjá dönsku heilbrigðisstofnuninni SSI, í samtali við fréttastofu TV2.

Samkvæmt tölum SSI í lok síðustu viku er tæplega helmingur allra smita í Danmörku af völdum þessa undirafbrigðis og aðeins tímaspursmál hvenær það verður ríkjandi afbrigði.

Fundist hafi í landinu þrjú afbrigði af Ómíkron; auk BA.2 og hins ríkjandi og upprunalega afbrigðis Ómíkron, BA.1, hefur afbrigðið BA.3 einnig greinst.

Virðist ekki veikjast af BA.2

Fomsgaard sagði við dönsku fréttastofuna TV 2 að við fyrstu sýn virtist fólk ekki veikjast af völdum BA.2.

Eins og áður sagði hefur útbreiðslan hvergi mælst af sama hraða og í Danmörku.

Anders Fomsgaard segist ekki hafa skýringar á því hvers vegna það sé en segir SSI vinna stöðugt að því kanna muninn á þessum tveimur undirafbrigðum Ómíkron og bendir á að enn sem komið er séu ekki neinar vísbendingar um að bóluefni séu minna virk gegn BA.2-afbrigðinu en upprunalega Ómíkron-afbrigðinu. 

Að sögn Fomsgaard benda engar vísbendingar til þess að bóluefni …
Að sögn Fomsgaard benda engar vísbendingar til þess að bóluefni séu minna virk gegn BA.2-afbrigðinu en upprunalega Ómíkron-afbrigðinu, BA.1. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á fullri ferð í Noregi

Norska ríkisútvarpið greindi einnig frá því fyrir helgi að undirafbrigði Ómíkron, BA.2, væri á fullri ferð í Noregi samkvæmt vikuskýrslu lýðheilsustofnun Noregs, FHI. Sagði þá að eini eiginleiki afbrigðisins sem væri þekktur væri sá að það væri meira smitandi en BA.1 og að það virtist vera að taka fram úr BA.1. Afbrigðið hefur aðallega greinst í nálægð við Ósló.

Svenska Dagbladet greindi einnig frá útbreiðslu afbrigðisins þar í landi í gær og sagði það hafa breiðst út hratt í Danmörku, Indlandi og Bretlandi en einnig í Svíþjóð.

„Við höfum fengið fregnir um undirafbrigðið frá löndum sem hafa verið með mikla útbreiðslu af fyrsta afbrigði Ómíkron sem kallast BA.1. Engar vísbendingar eru nú um að þetta afbrigði sé hættulegra en það fyrra," sagði Ali Mirazimi, prófessor við Karolinska Institutet.

Hægt að smitast af BA.1 og svo af BA.2

Fomsgaard sagði í viðtali á föstudag að BA.2 gæti hugsanlega ógnað hjarðónæmi því hægt væri að smitast af BA.1-afbrigðinu fyrst og síðan stuttu síðar af BA.2. Slík tilfelli hefðu komið upp í Noregi.

„Ef það sama gerist í Danmörku gæti verið að við yrðum að sætta okkur við að faraldurinn nái hámarki aftur,“ sagði Fomsgaard. En bætti við að það væri enn bara fræðilegur möguleiki og nokkuð sem yrði að fylgjast með.

Fomsgaard sagði þó að óhóflegar áhyggjur væru óþarfar.

„Við sjáum engan mun á innlögnum á sjúkrahús, dánartíðni og svo framvegis hjá Ómíkron og BA.2, þannig að það er ekkert sem veldur okkur áhyggjum í sjálfu sér. En við gerum okkur líka grein fyrir því að við höfum rannsakað þetta í mjög stuttan tíma,“ sagði hann og bætti við að BA.2 væri nýr þátttakandi í leiknum sem SSI er enn að rannsaka.

Enn sem komið er getur Fomsgaard þó ekki sagt margt með vissu þar hann hefur aðeins fylgst með BA.2 í mjög stuttan tíma. Hann nefnir þó að ástæðan fyrir hraðri útbreiðslu geti verið sú að BA.2 sé meira smitandi.

Ekki óeðlilegt að veirur stökkbreytist

426 smit af völdum undirafbrigðisins hafa verið staðfest í Englandi. Heilbrigðisöryggisstofnun Bretlands, UKHSA, hefur lýst BA.2 sem „afbrigði í rannsókn“, að því er segir í umfjöllun Independent.

Rétt eins og rannsóknir í öðrum löndum benda til virðist sem afbrigðið smitist hraðar en upprunalegt afbrigði Ómíkron, en vísindamenn vita það þó ekki með vissu.

UKHSA sagði að frekari greining yrði framkvæmd á BA.2 til að ákvarða eiginleika þess og skilja betur hvernig það gæti mótað faraldur Bretlands á næstu vikum.

Dr. Meera Chand hjá UKHSA sagði að það væri ekki enn ljóst hvort undirafbrigðið ylli alvarlegri sjúkdómi og bætti við að það væri eðlilegt að veirur stökkbreyttust.

„Það má búast við því að við munum halda áfram að sjá ný afbrigði koma fram,“ sagði hún og bætti við:

„Hingað til eru ekki nægar sannanir til að ákvarða hvort BA.2 veldur alvarlegri veikindum en Ómíkron BA.1, en gögn eru takmörkuð og UKHSA heldur áfram að rannsaka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert