Hundrað sinnum kraftmeira en sprengjan í Hiroshima

Hluti eyðileggingarinnar eftir eldgosið.
Hluti eyðileggingarinnar eftir eldgosið. AFP

Eld­gosið sem braust út í Tonga-eyja­klas­an­um í Kyrra­hafi um miðjan mánuðinn var hundrað sinnum kraftmeira en kjarnorkusprengjan sem Bandaríkjamenn vörpuðu á japönsku borgina Hiroshima í seinni heimsstyrjöldinni, samkvæmt Nasa.

Sprengingin þurrkaði út eldfjallaeyju norður af höfuðborg Tonga, Nuku'alofa.

Yfirvöld í Tonga segja að meira en 80% íbúa landsins hafi orðið fyrir áhrifum af flóðbylgju og öskufalli vegna gossins.

Staðfest er að þrír létust í flóðbylgjunni.

Þykkt lag af ösku liggur yfir stórum hluta eyjaklasans en áhyggjur af menguðu drykkjarvatni vegna þess virðast ekki vera að rætast, samkvæmt frétt BBC.

Askan veldur þó vandræðum en fólk með lungnavandamál getur átt erfitt með andadrátt í aðstæðum svipuðum og þeim sem eru á eyjaklasanum.

Nýja-Sjáland og Ástralía hafa notað lofther og sjóher til að senda vatn og aðrar nauðsynjar til eyjaklasans. Yfirvöld í Tonga hafa óskað eftir því að engir frá öðru landi aðstoði við hjálparstarf á eyjunum vegna ótta við Covid-smit. Hingað til hefur enginn greinst með veiruna í Tonga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert