Blaðakona myrt í Mexíkó

Frá morðvettvangnum í Tíújana.
Frá morðvettvangnum í Tíújana. AFP

Blaðakonan Lourdes Maldonado var myrt í Tíjúana, Mexíkó, á sunnudaginn síðastliðinn. Um er að ræða annað skiptið sem fjölmiðlamaður er myrtur í borginni á einni viku.

Stóð í málaferli vegna ólögmætrar uppsagnar

Maldonado skotin í bifreið sinni, að sögn ríkissaksóknara Baja Kaliforníu ríkis Mexíkó.

Samkvæmt nýjasta matskvarða samtakanna Blaðamenn án landamæra er Mexikó eitt hættulegasta land í heimi fyrir fjölmiðlamenn. Næst á eftir koma Afganistan og Jemen.

Maldonado hafði starfað fyrir fjölda miðla á sínum ferli en einn þeirra er Primer Sistema de Noticias (PSN), sem er í eigu Jaime Bonilla Valdez, fyrrum ríkisstjóra Baja Kalíforníu, að því er AFP-fréttaveitan greinir frá.

Fyrir aðeins fáeinum dögum síðan vann hún mál sem hún höfðaði gegn PSN vegna óréttmætrar uppsagnar en málaferlið hafði staðið yfir í mörg ár.

Hún óskaði eftir stuðningi Andres Manuel Lopez Obrador, forseta Mexíkó, í málinu árið 2019, þar sem hún sagðist óttast um líf sitt.

„Hann hefur staðið með mér í réttarhöldum vegna þessa máls í sex ár,“ sagði hún um Lopez Obrador á einum blaðamannafunda hans.

Loftmynd sem sýnir lögreglubíla girða morðvettvanginn af.
Loftmynd sem sýnir lögreglubíla girða morðvettvanginn af. AFP

Fjórða árásin á innan við tveimur vikum

Forsetinn vottaði fjölskyldu Maldonado samúð sína á mánudag og sagðist afar sorgmæddur yfir raunum hennar. Bætti hann því við að eftir beiðni hennar um aðstoð hans hafi ríkisstjórnin haldið sambandi við Maldonad og að henni hafi verið lofuð hjálp.

Forsetinn sagði óábyrgt að tengja morðið á henni við málaferlið sem hún stóð í gegn PSN áður en hún lést, á meðan rannsókn á morðinu stæði enn yfir.

Balbina Flores, fulltrúi Mexíkó Blaðamanna án landamæra, sagði í samtali við AFP það óstaðfest hvort Maldonado hafi hlotið raunverulega vernd stjórnvalda í sínu máli.

Morðið á henni sendi þau skilaboð að þeir sem myrða fjölmiðlamenn hljóti engar afleiðingar, enda reyni enginn að stöðva þá.

Talsmenn samtakanna Nefnd til verndar blaðamönnum (CPJ) kölluðu eftir því að mexíkósk stjórnvöld rannsaki morðið á Maldonado til hins ítrasta.

Jan-Albert Hootse, mexíkóskur fulltrúi samtakanna, sagði það vekja mikinn óhug að fjórir mismunandi fjölmiðlamenn hafi orðið fyrir lífshættulegum árásum í Mexíkó á innan við tveimur vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert