Viðbúnaður vegna kafaldsbyls

Yfirvöld í Boston hafa tiltæk 40 þúsund tonn af salti …
Yfirvöld í Boston hafa tiltæk 40 þúsund tonn af salti vegna mögulegrar hálku. AFP

Búist er við norðaustanstrekkingi og kafaldsbyl á Nýja-Englandi á austurströnd Bandaríkjanna á morgun. Snjóbylurinn gæti haft áhrif á allt að 75 milljónir íbúa austurstrandarinnar. 

Gert er ráð fyrir mikilli snjókomu og vindar gætu orðið að fárviðri samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs. Hætta er á að rafmagnsleysi víða og flóðhætta er á strandsvæðum. Flugferðum hefur verið aflýst og veðurfræðingar hafa biðlað til yfirvalda í nokkrum ríkjum að lýsa yfir neyðarástandi. 

Búist er við því að snjóbylurinn komi af hafi úti, yfir Norður- og Suður-Karólínu og aukist síðan eftir því sem hann fer yfir austurströndina í norðurátt á laugardag. 

Veðurviðvaranir voru gefnar út fyrir svæði þar sem yfir 10 milljónir búa og nær það yfir 10 ríki. Innan svæðisins er Portland í Maine-ríki, Boston og Cape Cod í Massachusetts, eystri helmingur Lond Island, New Jersey og Maryland.

Í Boston er búist við um 50 sentímetra snjókomu. Veðurviðvörun tekur gildi í borginni klukkan 21 í kvöld að staðartíma og mikill viðbúnaður er hjá yfirvöldum vegna fyrirhugaðs snjómoksturs í fyrramálið. Skólasvæðum í borginni og úthverfum hennar hefur verið lokið og gert er ráð fyrir skertri þjónustu veitingastaða og verslana á morgun. Langar raðir mynduðust í matvörubúðum í dag og ýmsar nauðsynjar á borð við drykkjarvatn og klósettpappír seldust upp fyrir hádegi. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert