Pútín heitir sigri rétt eins og 1945

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, fyrir helgi.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, fyrir helgi. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hét því í morgun að „eins og árið 1945 þá munum við sigra“ þegar hann óskaði fyrrverandi aðildarríkjum Sovétríkjanna til hamingju með að 77 ár eru liðin síðan nasistar voru stöðvaðir í síðari heimsstyrjöldinni.

„Í dag eru hermenn okkar, rétt eins og forfeður þeirra, að berjast hlið við hlið til að frelsa ættjörð sína frá nasistaóþverra með slíku sjálfstrausti að, eins og árið 1945, þá munum við sigra,“ sagði Pútín, sem sendi rússneskar hersveitir inn í Úkraínu í febrúar.

Koma þurfi í veg fyrir endurfæðingu nasisma

„Í dag er það okkar sameiginlega skylda að koma í veg fyrir endurfæðingu nasismans sem olli fólki um allan heim mikilli þjáningu,“ sagði Pútín.

Hann bætti við að hann vonaði að „nýjar kynslóðir verði verðugar minningarinnar um feður sína og afa“.

Auk þess að tala um hermenn minntist hann á almenna borgara „á heimavígstöðvunum....sem börðu á nasistum með tilheyrandi, óteljandi fórnum“.

Frá heræfingu í Moskvu í gær vegna athafnarinnar á morgun.
Frá heræfingu í Moskvu í gær vegna athafnarinnar á morgun. AFP

„Því miður er nasisminn farinn að láta að sér kveða á nýjan leik,“ sagði Pútín, sem hefur talað um mikilvægi þess að „afnasistavæða“ Úkraínu. Fasismi í Úkraínu sé ógn við Rússa og rússneskumælandi minnihlutann í austurhluta Úkraínu, sem Rússar segjast vera að „frelsa“.

„Okkar heilaga skylda er að halda aftur af hugmyndafræðilegum fylgjendum þeirra sem voru sigraðir,“ bætti hann við og átti þar við síðari heimsstyrjöldina. Hvatt hann Rússa til að „leita hefnda“. Einnig óskaði hann þess að allir íbúar Úkraínu njóti friðsamlegrar og réttlátrar framtíðar.

Á morgun verður sigursins yfir nasistum minnst með hátíðlegum hætti í Moskvu með mikilli skrúðgöngu hersins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert