Búa til sýrlenskar tunnusprengjur í Rússlandi

Eyðileggingin í Úkraínu er nú þegar mikil.
Eyðileggingin í Úkraínu er nú þegar mikil. AFP

Tæknimenn, sem unnu fyrir sýrlenska herinn við að búa til tunnusprengjur, hafa verið sendir til Rússlands til þess að hefja svipaða framleiðslu til notkunar í Úkraínu. 

Þetta kemur fram á vef The Guardian en tunnusprengjurnar ollu gríðarlegu tjóni í stríðinu í Sýrlandi.

Leyniþjónustumenn í Evrópu segja að fleiri en 50 sérfræðingar, sem hafa allir mikla reynslu af því að búa til sprengjur, séu búnir að vera í Rússlandi í nokkrar vikur að vinna samhliða embættismönnum Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta. 

Hótun um notkun efnavopna

Vinna sérfræðinganna er viðvörun til Evrópuríkja og Bandaríkjanna um að Rússar séu mögulega að undirbúa notkun efnavopna í átökunum, sem hafa nú staðið yfir í tæpa þrjá mánuði. 

Tunnusprengjurnar eru, líkt og nafnið gefur til kynna, tunnur fullar af sprengjuefni sem eru síðan varpað á jörðina frá þyrlum. 

Í Sýrlandi er talið að tunnurnar hafi einnig verið fylltar af klóri sem leiddi til dauða hundruð manna. 

Ástandið í Úkraínu er þó ólíkt því sem þekktist í Sýrlandi þar sem að loftvarnir Úkraínuhers eru sterkar og því hefur ekki verið auðvelt fyrir rússneskar herþotur að fljúga inn í lofthelgi ríkisins til að varpa sprengjum. 

Betri kjör en í Sýrlandi

Leyniþjónustumennirnir telja líklegt að um 800 til 1.000 sýrlenskir hermenn hafi boðist til þess að berjast fyrir rússneska herinn í Úkraínu frá því að stríðið hófst.

Yfirvöld í Kreml borga þeim um 1.500 til 4.000 dollara fyrir, eða á bilinu 130 þúsund til 530 þúsund íslenskar krónur, fyrir vinnuna sem eru um 20 sinnum meira en sýrlensku hermennirnir fengju borgað í heimalandinu. 

Fjórar miðstöðvar hafa verið settar upp í Sýrlandi fyrir sjálfboðaliða sem vilji fara til Rússlands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert