Lofthelgi lokað fyrir Lavrov

Sergei Lavrov.
Sergei Lavrov. AFP

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, þurfti að hætta við heimsókn til Serbíu eftir að nágrannalönd Serbíu komu í veg fyrir að flugvél hans kæmist í gegnum lofthelgi þeirra.

Lavrov átti að ræða við hæstráðendur í Belgrad, höfuðborg Serbíu, en þjóðin er einn af fáum bandamönnum Rússa sem eftir eru í Evrópu síðan þeir réðust inn í Úkraínu fyrr á þessu ári.

„Löndin í kringum Serbíu hafa lokað samskiptaleiðum með því að neita að veita leyfi fyrir því að flugvél Sergei Lavrov fari í gegnum lofthelgi á leið til Serbíu,“ höfðu rússneskar fréttastofur eftir talsmanni rússneska utanríkisráðuneytisins, Maríu Zhakarovu.

Aleksandar Vucic, forseti Serbíu.
Aleksandar Vucic, forseti Serbíu. AFP

„Rússneska sendinefndin átti að lenda í Belgrad vegna viðræðna. En aðildarríki ESB og NATO lokuðu lofthelgi sinni.“

Að sögn serbneska blaðsins Vecernje Novosti voru það Búlgaría, Makedónía og Svartfjallaland sem komu í veg fyrir að flugvélin kæmist leiðar sinnar.

Lavrov ætlaði meðal annars að funda með Aleksandar Vucic, forseta Serbíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert