Selenskí þakkar Bandaríkjunum

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, lét þessi orð falla í ávarpi …
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, lét þessi orð falla í ávarpi sínu í kvöld. AFP/ Ukrainian presidential press service

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, lýsti í kvöld yfir þakklæti vegna nýfengins stuðnings Bandaríkjamanna við Úkraínu í formi hergagna. 

Selenskí fundaði með Joe Biden, forseta Bandaríkjanna og birti svo ávarp þar sem hann tilkynnti að Bandaríkin muni styðja við varnarsveitir Úkraínu með því að senda þeim „stuðningspakka“ að verðmæti eins milljarðs Bandaríkjadala. 

„Ég er þakklátur fyrir þennan stuðning, en hann er sérstaklega mikilvægur fyrir varnir okkar í austurhluta Donbas héraðsins.“

Vopn og ráðgjöf

Biden gaf svo frá sér yfirlýsingu sem staðfesti þetta. Þá uppljóstraði hann því að stuðningurinn væri í formi þungavopna, strandvarnarkerfa, skotfæri fyrir þungavopnin og loks háþróaðra eldflaugakerfa, sem Úkraína hefur nú þegar verið að nýta sér. 

Selenskí kveðst einnig hafa leitað ráða hjá Biden um það hvernig væri best að skipuleggja varnir á átakasvæðunum til þess að þokast nær sigri. 

G7 og NATO ríkin ræði framtíðarstuðning

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands birti færslu á twitter þar sem hann sagði bresk yfirvöld styðja Úkraínu og sá stuðningur muni halda áfram uns Úkraína getur loks lýst yfir fullnaðarsigri. 

Þá sagði hann að leiðtogar G7 ríkjanna muni koma saman, ásamt leiðtogum aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins. Muni þá fást tækifæri fyrir vestrænu ríkin að ræða og ná sér saman um það hvernig þau geti best stutt við Úkraínu til lengri tíma litið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert