Krefst milljarða í iPhone-deilu

Fram kemur að málið varði iPhone-síma af gerðinni 6, 6 …
Fram kemur að málið varði iPhone-síma af gerðinni 6, 6 Plus, 6S, 6S Plus, SE, 7, 7 Plus, 8, 8 Plus og iPhone X. AFP

Milljónir iPhone-notenda í Bretlandi gætu átt von á því að hljóta bætur í kjölfar dómsmáls sem hefur verið höfðað á hendur Apple, sem framleiðir iPhone-snjallsíma. Fyrirtækið er sakað um að hafa með vísvitandi hætti hægt á afkastagetu eldri síma. 

Justin Gutmann heldur því fram að fyrirtækið hafi afvegaleitt notendur í tengslum við uppfærslu sem Apple hélt fram að ætti að auka afköst símtækjanna, þegar raunin var sú að símarnir fóru að vinna hægar. 

Fram kemur í umfjöllun BBC, að Gutmann fari fram á um 768 milljónir punda, sem jafngildir um 122 milljörðum kr., í bætur fyrir um það bil 25 milljónir iPhone-notendur í Bretlandi.

Forsvarsmenn Apple segjast aldrei hafa ætlað að draga úr afkastagetu tækjanna með vísvitandi hætti. 

Ferli sem nefnist throttling

Í málinu er því haldið fram að Apple hafi hægt á getu eldri iPhone-símtækja, í ferli sem nefnist á ensku throttling, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir kostnaðarsamar innkallanir á vörum eða viðgerðir. 

Þetta tengist forriti sem ætlað var að halda utan um orkunotkun símtækjanna sem var hluti af uppfærslu frá því í janúar 2017. Sú uppfærsla átti að bæta afkastagetu símanna og koma í veg fyrir að eldri iPhone-símar slökktu óvænt á sér. 

Gutmann segir að Apple hafi ekki greint frá ofangreindu orkuforriti þegar uppfærslan var kynnt á sínum tíma. Þá hafi Apple sömuleiðis ekki greint notendum frá því að símtæki gætu orðið hægvirkari. 

Hann heldur því jafnframt fram, að Apple hafi kynnt forritið til sögunnar til að fela þá staðreynd að rafhlöður í iPhone hafi mögulega átt í vandræðum með nýjustu hugbúnaðarútgáfu Apple. Svo í stað þess að innkalla síma og bjóðast til að skipta um rafhlöður hafi Apple farið í umrædda uppfærslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert