Tók við milljónum punda í reiðufé

Karl Bretaprins ásamt móður sinni Elísabetu drottningu.
Karl Bretaprins ásamt móður sinni Elísabetu drottningu. AFP

Karl Bretaprins tók við skjalatösku, sem hafði að geyma eina milljón sterlingspunda í reiðufé, frá umdeildum katörskum stjórnmálamanni.

Breska dagblaðið Sunday Times greinir frá þessu. Alls mun prinsinn þrisvar hafa tekið persónulega við samtals þremur milljónum sterlingspunda frá sjeiknum Hamad bin Jassim bin Jaber Al Thani, fyrrverandi forsætisráðherra Katar, á árunum 2011 til 2015.

Starfshættir embættisins sæta þegar rannsókn.
Starfshættir embættisins sæta þegar rannsókn. AFP

Reiðufénu troðið í töskur

Í eitt skiptanna afhenti Al Thani prinsinum eina milljón punda sem troðið hafði verið í töskur Fortnum & Mason, lúxusvöruframleiðandans sem hefur sérstaka útnefningu krúnunnar til að útvega Bretaprinsi matvörur og te.

Í yfirlýsingu frá embætti prinsins til blaðsins í dag segir að peningurinn hafi „samstundis runnið til eins af góðgerðarfélögum Karls“, sem hafi fullvissað embættið um að öllum reglum væri fylgt.

Eftir að krúnuerfinginn tók við skjalatöskunni, sem fyrst var nefnd, tóku tveir ráðgjafar prinsins við henni og töldu peningana í höndunum.

Mun upphæðin hafa verið í formi 500 evra seðla, sem einnig þekkjast undir viðurnefninu „bin Laden“, vegna tengsla slíkra seðla við fjármögnun hryðjuverka. 500 evra seðlar hafa síðan verið teknir úr umferð.

Konungsfjölskyldan á svölum Buckingham-hallar. Karl er næstur í röðinni að …
Konungsfjölskyldan á svölum Buckingham-hallar. Karl er næstur í röðinni að krúnunni. AFP

Fundirnir ekki í skránni

Fundir Karls Bretapsins og Al Thani eru ekki skráðir í opinbera skrá yfir formleg störf þeirra sem tilheyra konungsfjölskyldunni, samkvæmt umfjöllun blaðsins.

Í stefnu krúnunnar varðandi gjafir segir að aldrei megi taka við peningagjöfum í tengslum við opinber störf eða skyldur. Taka megi þó við ávísun sem verndari góðgerðasamtaka eða fyrir þeirra hönd.

Breska lögreglan, og eftirlitsstofnun góðgerðafélaga þar í landi, hafa starfshætti embættis prinsins þegar til rannsóknar. Í umfjöllun Sunday Times er vísað til svokallaðrar „cash-for-access culture“, þar sem aðgengi að prinsinum virðist hafa fengist með peningagjöfum. Er þá meðal annars litið til sölu heiðurstitla.

Uppljóstranir blaðsins eru sagðar vekja alvarlegar spurningar um dómgreind krúnuerfingjans og hlutleysi hans í forsvari fyrir Bretland á alþjóðasviðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert