Tók þrettán mínútur að handtaka manninn

Lögreglumaðurinn Dannie Rise á blaðamannafundi í dag.
Lögreglumaðurinn Dannie Rise á blaðamannafundi í dag. AFP

Þrettán mínútur liðu frá því að lögreglu barst tilkynning um skotárásina þar til að árásarmaðurinn, sem skaut þrjá til bana í verslunarmiðstöð í Kaupmannahöfn í gær, var handtekinn.

Þetta kom fram á blaðamannafundi dönsku lögreglunnar sem danska ríkissjónvarpið greindi frá. 

Tíu urðu fyrir skotum

Tíu urðu fyrir skotum árásarmannsins. Þrír eru látnir og fjórir eru alvarlega særðir. Af tíu fórnarlömbum eru sex konur og fjórir karlar. Sex fórnarlambanna eru danskir ríkisborgar, tveir sænskir, einn er afganskur ríkisborgari og einn er rússneskur ríkisborgari sem býr í Danmörku.

Lögreglan sagðist ekki vita nákvæmlega hversu mörgum skotum árásarmaðurinn skaut.

Þá sér lögreglan, eins og er, ekki tengsl á milli fórnarlambanna og árásarmannsins.

Lögreglan varar fólk eindregið við því að deila myndböndum og myndum á samfélagsmiðlum frá vettvangi. Það gæti verið refsivert.

Fólk minnist fórnarlambanna fyrir utan verslunarmiðstöðina Field's.
Fólk minnist fórnarlambanna fyrir utan verslunarmiðstöðina Field's. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert