Vara við miklum hita á Spáni

Fólk kælir sig við gosbrunn í spænsku borginni Sevilla í …
Fólk kælir sig við gosbrunn í spænsku borginni Sevilla í gær. AFP/Jorge Guerrero

Viðvörun á háu stigi hefur verið gefin út á þó nokkrum svæðum á Spáni vegna hitabylgju í vestanverðri Evrópu, sem er sú önnur í röðinni á undanförnum vikum.

Búist er við því að hitastigið fari upp í 44 stig á sumum svæðum á Spáni, en þar hefur mikill hiti verið síðan hitabylgjan hófst um síðustu helgi. Búist er við því að hún haldi áfram til næsta sunnudags.

Hitinn hefur sömuleiðis verið mikill í Frakklandi og í Portúgal í þessari viku og hafa skógareldar orðið í báðum löndunum.

Hitastigið í borginni Sevilla á Spáni í gær.
Hitastigið í borginni Sevilla á Spáni í gær. AFP/Jorge Guerrero

Ráðið frá ferðalögum

Veðurstofa Spánar sagði að sumir hlutar landsins væru „að kafna" sérstaklega á svæðunum þar sem hitinn hefur verið mestur, eða í Andalúsíu í suðri, Extremadura í suðvestri og Galisíu í norðvestri. Þarna er veðurviðvörunin komin á hátt stig, sem þýðir að íbúar eru hvattir til að fara varlega og fylgjast vel með veðurspám. Einnig er þeim ráðið frá ferðalögum nema nauðsyn krefur.

Fyrir utan Kanaríeyjar var viðvörunarstigið lægra vegna hitans á öllum öðrum svæðum á Spáni. 

Fólk kælir sig niður í sundlaug í borginni Madríd í …
Fólk kælir sig niður í sundlaug í borginni Madríd í gær. AFP/Osvar Del Pozo

Þessi mikli hiti tengist skógareldum sem hafa þegar brennt 3.500 hektara svæði í vesturhluta Spánar, skammt frá landamærunum að Portúgal. Yfirvöld í Portúgal segja að einn hafi látist í skógareldum eftir að lík hans fannst á svæði sem varð eldi að bráð í héraðinu Aveiro í norðurhluta landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert