Eltu konurnar og börðu þær með riffli

Hér má sjá hvar mótmælendur flýja vettvang eftir að skotum …
Hér má sjá hvar mótmælendur flýja vettvang eftir að skotum var hleypt af og kröfugangan leyst upp. AFP

Evrópusambandið hefur lýst yfir sérstökum áhyggjum vegna versnandi stöðu kvenna í ríki talíbana í Afganistan. Yfirlýsing þessi var gefin út í kjölfar harkalegra viðbragða stjórnvalda þar í landi, við kröfugöngu afganskra kvenna í gær. 

Hermenn talíbana hleyptu skotum upp í loftið og börðu þátttakendur í kröfugöngunni, sem bar yfirskriftina: „Brauð, vinna, frelsi.“ Einhverjar konur voru eltar inn í verslanir í grenndinni þar sem þær voru barðar með rifflum.

Sviptar réttindum sem þær hafa fengið að kynnast

„Evrópusambandið hefur sérstakar áhyggjur af örlögum afganskra kvenna og stúlkna, sem hafa fengið að kynnast frelsi, mannréttindum og aðgangi að grunnþjónustu á borð við menntun, en eru nú sviptar því öllu með kerfisbundnum hætti.“

Þá minnir Evrópusambandið á að stjórnvöld í Afganistan verði að virða alþjóðlegar skuldbindingar sínar, sem viðurkennd sjálfstætt ríki. Í því felist skylda til þess að virða og tryggja efnahagsleg, félagsleg, menningarleg og stjórnmálaleg réttindi, sem og grundvallar mannréttindi. Þá megi stjórnvöld ekki útiloka tiltekinn hóp frá samfélagslegri þátttöku. 

Í yfirlýsingunni áréttar Evrópusambandið jafnframt að Afganistan skuli ekki stilla sér upp sem ógn við annað ríki, og vísar til þeirra skuldbindinga sem Afganistan hefur gengist undir í gegnum öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert