Brúin var síðast skoðuð í júní

Tvö ökutæki féllu í ána.
Tvö ökutæki féllu í ána. AFP/Geir Olsen

Norska vegagerðin segir að viðarbrúin Tretten sem hrundi í morgun í suðurhluta Noregs hafi síðast verið skoðuð þann 3. júní síðastliðinn, að því er fram kemur í umfjöllun NRK um málið. 

Ekkert fannst þá sem leiddi til þess að brúin gæti talist hættuleg umferð en tveir bílar féllu í ána Gudbrands­dalslå­gen í kjölfar hrunsins í morgun og var einum ökumanni bjargað með aðstoð þyrlu. Svo virðist sem allir hafi komist lífs af.

Gerðar voru þó þrjár athugasemdir um liði sem þörfnuðust viðhalds, en frestur til verksins var settur til 31. desember 2024. 

Horft yfir brúna sem hrundi í morgun.
Horft yfir brúna sem hrundi í morgun. AFP/Stian Lysberg

Gerðu athugasemd 2016

Þrettán brýr voru rannsakaðar til hlítar árið 2016. Forsaga þess var sú að Perkolo-brúin við Sjoa hafði hrunið í febrúar sama ár. Auk þess fundust í sama mánuði bilanir við Sundbyveien-brúna.

Norska vegagerðin gerði athugasemdir við tvær brúnna í skýrslu sinni. Brýrnar tvær voru Tretten og Sundbyveien.

Varðandi Tretten-brúna skrifaði Vegagerðin að engar verulegar bilanir hefðu komið í ljós. Það sem hún fann aftur á móti voru nokkur meiriháttar atriði sem brutu í bága við nýjar reglugerðir, en brúin var reist eftir eldra regluverki sem var þá á útleið.

Geta unnið sig út úr viðnum

Við skoðun norsku vegagerðarinnar árið 2016 kom í ljós að nokkrir pinnar í skástoðum brúarinnar voru of stuttir. 

Skipaði vegagerðin fyrir um að þeim yrði skipt út, þar sem við breytilegt álag, á borð við það sem fylgir umferð, geta pinnarnir átt það til að vinna sig út úr viðnum.

Við það veikist brúin og svo virðist sem hrunið í morgun hafi verið afleiðing þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert