„Högg í andlitið“

Jerlan Omarchanov var sýknaður fyrir Héraðsdómi Kristiansand í morgun. Einn …
Jerlan Omarchanov var sýknaður fyrir Héraðsdómi Kristiansand í morgun. Einn 160 sjúklinga sem krafist hafa bóta vegna mistaka hans kveður dóminn högg í andlitið. Samsett mynd/Án höfundarmerkingar

Skurðlæknirinn Jerlan Omarchanov var í morgun sýknaður af ákæru fyrir gróf brot gegn norskri heilbrigðislöggjöf á þeirri forsendu að Sørlandet-sjúkrahúsið í Flekkefjord hefði ekki sett honum nægilega skýr mörk í starfi hans sem bæklunarskurðlæknir, réttindi til að starfa sem slíkur hafði hann hins vegar ekki.

Héraðsdómur Kristiansand klofnaði í afstöðu sinni, einn dómari taldi rétt að sakfella Omarchanov en tveir vildu sýkna. Sextíu sjúklingar hafa þegið bætur frá norska ríkinu vegna mistaka hans og alls 160 kvartað yfir vinnubrögðum hans og sóst eftir bótum frá bótasjóði sjúklinga, Norsk pasientskadeerstatning.

„Rétturinn fær ekki séð að ákærði hafi með vitund og vilja unnið starf sitt svo bryti í bága við faglegar kröfur og hjálplega umhyggjusemi,“ segir í dómsorði meirihlutans en rétt er að geta þess að eftir tólf ára starf Omarchanovs voru öll mál sjúklinga hans fyrnd utan eitt – mál Svein Are Auestad sem missti fótinn við hné vegna mistaka læknisins.

Hans Olav Røyrsaksóknari fór af þessum sökum ekki fram á meira en 18 daga fangelsi en verjandi Omarchanovs, Carl Henning Leknesund, krafðist sýknu og fékk hana. Kveðst hann ánægður með niðurstöðu dómsins í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Undangengin tvö ár hefur Omarchanov haldið til í Þýskalandi, enda var hann sviptur læknisleyfi sínu í Noregi, og náði verjandi hans aldrei tali af honum. Þýskur lögmaður læknisins hefur nú fengið dóminn sendan.

„Höfum ekkert að segja“

„Þetta er högg í andlitið,“ segir Svein Are Auestad, sjúklingurinn sem missti fótinn við hné, um dóminn, „ég er mjög vonsvikinn,“ bætir hann við og kveðst vona að dóminum verði áfrýjað en um það hefur hann ekkert að segja, ákæruvaldið ræður þar eitt.

Sjúkrahúsið í Flekkefjord sætir harðri gagnrýni í niðurstöðu meirihluta héraðsdóms. „Meðdómendur gera alvarlegar athugasemdir við ítrekaða handvömm í verkferlum auk skorts á verkferlalýsingum sem hafði þær afleiðingar að ákærði fékk að miklu leyti að starfa án þess að honum væru sett skýr mörk.

Stjórnendur sjúkrahússins í Flekkefjord hafa takmarkaðan áhuga á að tjá sig um dóminn: „Okkur hafa borist upplýsingar um sýknu. Umfram það höfum við ekkert að segja. Sørlandet-sjúkrahúsið er ekki aðili að málinu og þar með höfum við ekki fengið að sjá dóminn,“ segir Signy Svendsen, upplýsingafulltrúi sjúkrahússins.

NRK

Fædrelandsvennen

ABC Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert