Ákveðin „feminísk bylting“ í Íran

Mahsa Amini lést í haldi lögreglu en hún var handtekin …
Mahsa Amini lést í haldi lögreglu en hún var handtekin fyrir að brjóta strangar reglur um notkun höfuðslæðu. AFP

Jón Ingvar Kjaran, prófessor við Hí og sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda, segir mótmælin sem geisa nú í Íran ólík öðrum mótmælum, konur af öllum kynslóðum leiði mótmælin og því megi kannski segja að um femíníska byltingu sé að ræða. 

22 ára göm­ul kona, Mahsa Amini, lést í haldi lög­reglu eft­ir brot á henn­ar á ströng­um regl­um Írana um notk­un höfuðslæðu og hefur nú í sex daga verið mótmælt í 15 borgum í Íran.

Jón bendir á að í byltingunni 1979 í Íran innleiddu stjórnvöld mjög ströng lög hvað varðar klæðnað en síðan þá hafi verið mismunandi áherslur í landinu. Það hafi verið kjörnir forsetar í Íran sem séu aðeins umburðarlyndari og viðhorf til slæðunotkunar og kvenfrelsis tekið breytingum en nú séu Íranar með mjög íhaldssaman forseta, Ebrahim Raisi, og íhaldsöfl því ríkjandi í landinu.

Jón Ingvar Kjaran hélt í dag erindi á ráðstefnu í …
Jón Ingvar Kjaran hélt í dag erindi á ráðstefnu í Háskóla Íslands um aktívisma í Íran, bæði feminískan aktivísma og aktívisma hinsegin fólks. Ljósmynd/Aðsend

Forsetinn hert öll viðurlög

„Hann hefur verið að fylgja þessu mjög svo eftir og hert öll viðurlög, til dæmis ef að konur eru með slæðuna aftar, eins og margar íranskar konur hafa verið að gera,“ segir Jón og bendir á að Raisi hafi komið á reglugerð þar sem hann segir lögreglunni að vera strangari þegar kemur að klæðaburði kvenna.

„Í því samhengi er þessi kona handtekin og síðan drepin í varðhaldi,“ segir Jón.

„Síðan kemur þetta auðvitað allt ofan í miklar efnahagslegar þrengingar í Íran, sérstaklega eftir að Trump-stjórnin sagði upp kjarnorkusamningi við Íran sem núna er verið að reyna að endurvekja. Svo kemur Íran líka mjög illa út úr Covid-faraldrinum. Allt þetta er líka að auka á þjáningu hins almenna borgara þannig að vegna þessa, ásamt efnahagslegum þrengingum, sérstaklega þegar kemur að ungu fólki, þá auðvitað gjósa þessi mótmæli núna,“ segir Jón.

Konur af ólíkum kynslóðum hafa tekið þátt í mótmælunum.
Konur af ólíkum kynslóðum hafa tekið þátt í mótmælunum. AFP

Var andlát Amini kornið sem fyllti mælinn?

„Jú, að mörgu leyti má segja það og það hefur einhver suðupunktur verið í gangi en það sem er kannski svolítið sérstakt við þessi mótmæli er að það eru konur sem eru svolítið að leiða þessi mótmæli og það eru ekki bara ungar konur heldur líka konur frá ólíkum kynslóðum,“ segir Jón og bætir við:

„Þannig það má kannski að mörgu leyti segja að þetta séu ákveðin femínísk mótmæli eða femínísk bylting sem er að verða núna en við vitum það ekki.“

Konur hafa klippt af sér hárið í mótmælaskyni.
Konur hafa klippt af sér hárið í mótmælaskyni. AFP

Fókus heimsins á öðrum hlutum

Jón segist ekki mjög bjartsýnn á framhaldið. Núna hafi til að mynda írönsk stjórnvöld lokað á internetið svo lítið er vitað um hvað sé að gerast í landinu.

„Það kannski bendir til þess að írönsk stjórnvöld séu að gera eitthvað mjög slæmt, sumir segja að að sé verið að myrða fjöldann allan af mótmælendum en við vitum það bara ekki,“ segir Jón.

„Fókus heimsins er auðvitað núna á Úkraínu, Rússlandi og dauða drottningarinnar þannig þetta er auðvitað besti tíminn fyrir írönsk stjórnvöld að berja niður alla mótspyrnu og mótmæli,“ segir Jón Ingvar.

Kveikt í höfuðslæðu meðan á mótmælum stóð.
Kveikt í höfuðslæðu meðan á mótmælum stóð. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert