„Gróft brot á alþjóðlegum lögum“

Gangandi vegfarendur í Tókýó, höfuðborg Japans, þar sem sjá má …
Gangandi vegfarendur í Tókýó, höfuðborg Japans, þar sem sjá má leiðtoga Norður-Kóreu á stórum skjá í fréttunum. AFP/Richard A. Brooks

Charles Michel, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, hefur fordæmt ákvörðun Norður-Kóreu um að skjóta flugskeyti yfir Japan.

„Ég fordæmi harðlega vísvitandi tilraun Norður-Kóreu til að setja öryggi á svæðinu í hættu með því að skjóta flugskeyti yfir Japan. Þetta er órökstudd árásarhneigð og gróft brot á alþjóðlegum lögum,“ skrifaði Michel á Twitter.

Japönsk yfirvöld tilkynntu um atvikið seint í gærkvöldi og fordæmdu það eftir að í ljós kom að flugskeytið lenti í Kyrrahafi. Borg­ar­ar voru varaðir við og beðnir um að leita skjóls. 

Í fyrsta sinn í fimm ár

Þetta er í fyrsta sinn í fimm ár sem Norður-Kórea skýtur langdrægri eldflaug yfir Japan.

Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans, lýsti atvikinu sem „ofbeldisverknaði“ og utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna sagði að þetta „kæruleysislega og hættulega skot“ valdi „óásættanlegri ógn gagnvart japönskum almenningi“.

Karlmaður á gangi í Tókýó.
Karlmaður á gangi í Tókýó. AFP/Richard A. Brooks

Varnarmálaráðherra Japans, Yasukazu Hamada, sagði að flugskeytið gæti hafa verið af tegundinni Hwasong-12. Norðurkóresk stjórnvöld notuðu Hwasong-12 í síðustu tvö skiptin sem þau skutu flugskeytum yfir Japan, eða í ágúst og september 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert