Nýfædd börn fundust í frysti

Börnin fundust í frysti. Á mynd er húsið þar sem …
Börnin fundust í frysti. Á mynd er húsið þar sem börnin fundust. AFP

Andlát tveggja nýfæddra barna, sem fundust í frysti í suðurhluta Frakklands, eru talin hafa borið að með saknæmum hætti. Þetta segir Florence Galtier, saksóknari í Avignon í Frakklandi, en yfirvöld þarlendis uppgötvuðu líkin í síðustu viku á heimili konu.

Ekki er vitað hvort konan, sem er 41 árs og er sakborningur í málinu, sé móðir stúlknanna sem fundust í frystinum.

Krufning á líkunum sýndi að á einu barninu mátti sjá áverka. Það er hins vegar óljóst hvort þá megi rekja til ofbeldis. Lögreglan komst á snoðir um málið eftir að hafa fengið nafnlausa ábendingu þess efnis símleiðis, en ekki er vitað hvort sá aðili eigi aðild að málinu eða ekki.

Sams konar mál um árabil

Sams konar mál hafa komið upp í Frakklandi í gegnum árin. Í mars var kona um þrítugt handtekin eftir að tvö börn fundust „frosin“ heima hjá henni. Árið 2015 fundust fimm lík í svipuðu máli og var móðir barnanna dæmd til að sæta átta ára fangelsisvist.

Önnur kona hlaut einnig átta ára fangelsisvist árið 2009 fyrir að myrða nýfædd börn sín. Þau voru þrjú talsins en tvö þeirra fundust í frysti.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert