Gullhringir Pútín og Sauron

Vladimír Pútín Rússlandsforseti og leiðtogar Samveldis sjálfstæðra ríkja (SSR).
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og leiðtogar Samveldis sjálfstæðra ríkja (SSR). AFP/Alexey Danichev

Vladimír Pútín Rússlandsforseti gaf átta leiðtogum fyrrverandi aðildarríkja Sovétríkjanna gullhringi. Gjafirnar hafa leitt af sér ýmsa brandara vegna tilvísana í Hringadróttinssögu J.R.R. Tolkien.

Í skáldsagnaþríleiknum lætur hinn illi og valdagráðugi Sauron smíða galdrahringi, sem hann útbýtti meðal annars á milli níu konunga til þess að ná valdi yfir þeim. Sauron hélt Hringnum eina fyrir sjálfan sig, en Pútín hélt einum gullhring fyrir sig. 

Illmennið Sauron í Hringadróttinssögu.
Illmennið Sauron í Hringadróttinssögu. Ljósmynd/Wikipedia.org

Leiðtogar ríkjanna voru saman á ráðstefnu í Sankti Pétursborg í Rússlandi en eftir hana afhenti Pútín þeim hringana. Í þá var grafið merki Samveldis sjálfstæðra ríkja (SSR), nýárskveðja og orðið Rússland. 

Einungis náðist mynd af Alexander Lúkasjenkó, leiðtoga Hvíta-Rússlands, með hringinn. 

Alexander Lúkasjenkó, leiðtogi Hvíta-Rússlands, og Pútín.
Alexander Lúkasjenkó, leiðtogi Hvíta-Rússlands, og Pútín. AFP/Alexey Danichev/Sputnik

Telur tilvísunina vera viljandi

Stjórnmálafræðingurinn Ekaterina Schulmann telur að tilvísunin í bækur Tolkein sé viljandi.

Eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar hafa úkraínsk stjórnvöld líkt Rússlandi við Mordor, sem voru heimkynni Sauron í verkum Tolkien, og rússneskum hermönnum við orka, sem voru þrælar Sauron. 

Dmitrí Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvalda, sagði það vera óþarfa að lesa of mikið í gjafirnar. 

„Þetta er bara minjagripur um nýtt ár, það er ekkert sérstakt við hann,“ sagði hann og bætti við að Pútín myndi ekki klæðast hringnum sínum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert