Frakkland hóf skimanir á landamærum

Æ fleiri lönd krefja farþega frá Kína um neikvæða niðurstöðu …
Æ fleiri lönd krefja farþega frá Kína um neikvæða niðurstöðu úr kórónuveiruprófi. AFP

Frakkland bættist, í dag, við þann hóp landa sem gera kröfu um að farþegar frá Kína framvísi neikvæðu kórónuveiruprófi fyrir komu til landsins. 

Betra eftirlit með afbrigðum

Francois Braun, heilbrigðisráðherra Frakklands, segir þetta aukna eftirlit til þess að geta fylgst betur með mögulegri tilkomu nýrra afbrigða. 

Ómíkrón afbrigði kórónuveirunnar er með því algengasta sem greinist hjá farþegunum. 

Frá og með deginum í dag verða þeir sem ferðast frá Kína að bera grímu og verða prófin  gerð af handahófi við komu. 

Covid-sýktir sæti einangrun

Flestir farþegar sem ferðast frá Kína til Frakklands fara um Charles de Gaulle flugvöllinn. Þangað koma um tíu flugvélar á viku frá Kína.  

Af þeim 300 farþegum frá Kína sem lentu í París í dag, voru aðeins 60 á leið til landsins, en hinir voru aðeins að millilenda. Þessir 60 voru allir látnir gangast undir PCR-próf.

Farþegar sem greinast með veiruna í PCR-prófi við komu þurfa að fara í sjö daga einangrun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert