Vopnahlé Pútíns á að vera hafið

Ónýtir rússneskir skriðdrekar og herbílar til sýnis í Kænugarði, höfuðborg …
Ónýtir rússneskir skriðdrekar og herbílar til sýnis í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu. AFP/Sameer Al-Doumy

Stutt vopnahlé sem Vladimír Pútín Rússlandsforseti lýsti yfir en Úkraínumenn vísuðu á bug sem innantómri ákvörðun átti að taka gildi í morgun.

Átti þetta að vera fyrsta algjöra hléið á stríðinu í Úkraínu síðan Rússar réðust þangað inn í febrúar í fyrra.

Pútín fyrirskipaði að bardögum skyldi hætt í 36 klukkustundir á meðan á jólahátíð rétttrúnaðarkirkjunnar stæði.

Háttsettur úkraínskur embættismaður sagði skömmu eftir að vopnahléið átti að hefjast að hersveitir Rússa hafi gert árás á borgina Kerson í suðurhluta Úkraínu og að þó nokkrir hafi látist eða særst.

„Það voru að minnsta kosti fjórar sprengingar....Þeir tala um vopnahlé. Það eru svona manneskjur sem við erum í stríði við,“ sagði Kyrylo Tymoshenko, embættismaður forsetans.

Hann sagði ekki hvort árásirnar sjálfar hafi gerst fyrir eða eftir að vopnahléið átti að hefjast.

Uppfært kl. 11.57:

Rússneski herinn segist framfylgja vopnahléinu, sem átti að hefjast klukkan 9 í morgun, og sakar jafnframt úkraínska herinn um skotárásir.

„Þrátt fyrir að rússneskar hersveitir virði vopnahléið frá og með kl. 12. [að rússneskum tíma] hafa stjórnvöld í Kænugarði haldið áfram stórskotahríð á íbúabyggðir og rússneskar hersveitir,“ sagði varnarmálaráðuneyti Rússlands á samfélagsmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert