Banna einnota hnífapör og diska

Gafflar úr plasti verða bannaðir í Englandi.
Gafflar úr plasti verða bannaðir í Englandi. Ljósmynd/Pixabay

Yfirvöld í Englandi hafa tilkynnt að einnota hnífapör og diskar verði bönnuð þar í landi. 

BBC greinir frá þessu en ekki er ljóst hvenær bannið tekur í gildi. Yfirvöld í Wales og Skotlandi hafa þegar tekið þessa ákvörðun.

Thérèse Coffey umhverfisráðherra sagði að aðgerðin myndi stuðla að verndun umhverfisins fyrir komandi kynslóðir.

Aðgerðarsinnar fögnuðu ákvörðuninni en kölluðu þó eftir víðtækari stefnu til að draga úr plastnotkun. 

Tölfræði enskra yfirvalda gerir ráð fyrir að á hverju ári séu notaðir 1,1 milljarður einnota diska og meira en fjórir milljarðar hnífapara úr plasti. Því notar hver Englendingur að meðaltali 18 einnota diska og 37 hnífapör úr plasti á ári hverju. Einungis um 10% er endurunnið. 

Meðal annars voru einnota rör og eyrnapinnar bannaðir í Englandi árið 2020. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert