Heimspekingur á flugbannlista

Dr. Lars Gule segir nafn hans á flugbannlistanum bera vott …
Dr. Lars Gule segir nafn hans á flugbannlistanum bera vott um slæleg vinnubrögð alríkislögreglunnar FBI og upplýsingarnar séu villandi. Þær snúast þó um 43 ára gamalt mál og fangelsisdóm í Líbanon. Ljósmynd/Háskólinn í Ósló og Akershus

Dr. Lars Gule, fyrrverandi dósent í heimspeki við OsloMet-háskólann í Ósló í Noregi, nú nýfarinn á eftirlaun, er á flugbannlista bandarískra yfirvalda, lista yfir fólk sem ekki má fljúga til, frá eða yfir Bandaríkin á grundvelli hryðjuverkaógnar.

Kom þetta á daginn þegar svissneskur „hakkari“ gróf listann, sem varð til í kjölfar árásanna 11. september 2001, upp úr óravíddum lýðnetsins og birti hann.

Gule, sem er doktor í heimspeki frá Háskólanum í Bergen og þekktur samfélagsrýnir í Noregi, beindi rannsóknum sínum og kennslu einkum að öfgastefnum, fjölmenningu og íslam á meðan hann var starfandi innan norsks háskólasamfélags.

Samgönguöryggisstofnun rannsakar málið

Eftir því sem alríkislögreglan FBI greinir frá nær listinn yfir fólk sem ætla má að hafi einhver tengsl við hryðjuverkastarfsemi eða athafnir sem tengjast slíkri starfsemi. Listinn er að sjálfsögðu eins leynilegur og verða má, en eðlilega þurfa þó flugfélög að hafa aðgang að honum og það var í tölvukerfi eins þeirra, CommuteAir, sem hakkarinn svissneski fann listann.

Erik Kane, talsmaður CommuteAir, segir í samtali við vefritið Daily Dot að listinn hafi verið vistaður á netþjóni félagsins og hafi hakkarinn komist yfir 2019-útgáfuna af honum. Þá segir talsmaður Samgönguöryggisstofnunar Bandaríkjanna, TSA, við CNN að stofnunin viti af gagnalekanum og rannsaki nú tildrög málsins.

Norska ríkisútvarpinu NRK tókst að næla í eintak af listanum og greinir frá því að á honum sé nokkur fjöldi norskra nafna og séu þar gjarnan á ferð einstaklingar sem hafa hlotið dóma fyrir hryðjuverk, aðild að þeim eða undirbúning þeirra. Listinn er þó ekki flokkaður eftir þjóðernum, á honum eru nöfn og fæðingardagar.

Ein og hálf milljón á listanum

Með því að bera nöfnin saman við álagningarlista skattyfirvalda telja fréttamenn NRK sig hafa fundið 867 manns sem eru Norðmenn eða hafa lögheimili í Noregi. Ekki er þó hægt að taka af tvímæli um að sumir þessara meintu Norðmanna séu alnafnar með sama fæðingardag en án allra tengsla við landið.

Alls eru nöfnin á listanum um 1.500.000 svo hópurinn er drjúgur sem bandarísk yfirvöld vilja ekki hafa í flugvélum nálægt landi sínu. Hvernig skyldi þá standa á nafni 67 ára gamals doktors og prófessors í heimspeki þar? Á því finnst reyndar önnur skýring en að Gule hafi fjallað um öfgar og íslam í kennslu sinni og rannsóknum.

Árið 1977 var Gule stöðvaður á flugvellinum í Beirút í Líbanon og reyndist þá hafa sprengiefni í fórum sínum. Hlaut hann þar fangelsisdóm fyrir ólöglegan vopnaburð en var sýknaður af ákærulið um að hafa ætlað sér að fremja hryðjuverk.

„Eitthvað sem ég stend ekki fyrir lengur“

„Þetta segir töluvert um hve slælegar rannsóknir FBI eru,“ segir heimspekingurinn í samtali við NRK, „vera mín á þessum lista er tómt rugl og algjörlega merkingarlaust.“ Kom hann af fjöllum þegar þeir NRK-menn tilkynntu honum að nafn hans væri þar enda hefur hann aldrei átt erindi til Bandaríkjanna um sína daga og því aldrei reynt á flugbannið.

Telur Gule skráningu hans á listann bera vott um að Bandaríkjamennirnir séu lítt uppteknir af áreiðanleika þeirra gagna sem þeir styðjast við. Er hann þá spurður hvort ekki sé skiljanlegt að hann sé á listanum með tilliti til málsins í Beirút fyrir 43 árum.

„Nei. Ég skil að þeir rannsaki það sem ég gerði og það sem ég stend fyrir. En hefðu þeir lagt sig í líma við rannsóknir sínar vissu þeir að þetta er eitthvað sem ég stend ekki fyrir lengur. Þetta eru villandi upplýsingar. Hve margir aðrir ætli séu á þessum lista sem hafa jafnvel enn síðri ástæðu til að vera þar en ég?“ spyr heimspekingurinn að lokum.

NRK
Daily Dot
CNN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert