Skriðdrekarnir „munu brenna eins og allt annað“

Dimitrí Peskov, talsmaður Kremlar.
Dimitrí Peskov, talsmaður Kremlar. AFP/Natalía Kolesnikova

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur þakkað vinaþjóðum sínum sem nú tilkynna ein af annarri um sendingar skriðdreka til Úkraínu. Hann segir þó að afhending þeirra þurfi að fara fram sem fyrst.

Í næturávarpi sínu í nótt, sem Selenskí heldur öll kvöld, hvatti hann vestrænar þjóðir til að senda langdrægar loftskeytaflaugar og orrustuþotur.

Bandarísk yfirvöld tilkynntu í gær að þau myndu senda 31 orr­ustu­skriðdreka af gerðinni M1 Abrams til Úkraínu, og Þjóðverjar tilkynntu daginn áður um sendingu hlébarða-skriðdreka (Leop­ard 2A6-orr­ustu­skriðdreka) til Úkraínu og heimilaði sömuleiðis öðrum þjóðum að senda skriðdreka, framleidda í Þýskalandi, til Úkraínu. Í kjölfarið hafa Norðmenn einnig tilkynnt um vopnasendingu. 

Rússar hafa fordæmt vopnasendingarnar og sagt þær „augljósa ögrun“ af hálfu Vesturlanda og að hvaða skriðdrekar sem kæmu til Úkraínu yrði grandað.

Skriðdrekarnir munu „brenna, rétt eins og allt annað,“ sagði Dimitrí Peskov, talsmaður Vladimírs Pútíns. „Þeir eru bara mjög dýrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert