Staðan í Austur-Úkraínu versnar

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti. AFP/Yuriy Dyachyshyn

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti segir að ástandið á víglínum landsins í austri sé að versna. 

Nefndi hann þrjár borgir í Dónetsk-héraði sérstaklega, Bakmút, Vuhledar og Lyman.

Í daglegu ávarpi sínu sagði Selenskí að frá því að stríðið hófst hefur hann oft þurft að segja að ástandið væri erfitt og að það væri að versna. 

„Nú er aftur kominn sá tími. Tími er árásarmennirnir reyna ákaft að brjóta niður varnir okkar.“

Frá Bakmút í austurhluta Úkraínu.
Frá Bakmút í austurhluta Úkraínu. AFP/Yasuyoshu Chiba

Ný sókn Rússa í mánuðinum

BBC greinir frá því að varnarmálaráðuneyti Bretlands telji að úkraínskir hermenn í Bakmút einangrist nú vegna átaka í borginni.

Oleksí Reznikov, varnarmálaráðherra Úkraínu, býst við nýrri sókn Rússa í þessum mánuði. Á blaðamannafundi sagðist hann ekki gera ráð fyrir að vopnasendingar vestrænna ríkja komi til landsins áður en sóknin hefst, en að Úkraínumenn ættu þó birgðir til þess að verjast henni. 

Reznikov sagðist búast við því að Rússar myndu einblína í sókn sinni á austurhluta Donbass-héraðs og þannig búa til ákveðin landgang yfir á Krímskaga með því að hefja sókn á Suður- og Austur-Úkraínu. 

Þá staðfesti varnarmálaráðherrann að úkraínskir hermenn muni hefja æfingar á Leopard-skriðdrekunum á morgun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert