Erkibiskupinn ákærður

Erkibiskupinn Justin Welby setur kórónuna á höfuð Karls.
Erkibiskupinn Justin Welby setur kórónuna á höfuð Karls. AFP/Jonathan Brady

Erkibiskupinn Justin Welby var í dag sóttur til saka vegna hraðasektar sem var ógreidd. 

Erkibiskupinn hefur mikið verið í sviðsljósinu að undanförnu en einungis vika er liðin frá því að hann krýndi Karl III Bretakonung.

Hraðamyndavél tók mynd af bíl biskupsins í október á síðasta ári þar sem hann var á leiðinni til Lambeth hallarinnar, sem er aðsetur erkibiskupsins.

Samkvæmt mælingum var bíllinn á 40 km/klst hraða á vegi þar sem hámarkshraðinn er 30 km/klst.

Hefur erkibiskupinn gert þrjár tilraunir til að greiða 300 punda sektina, sem nemur 52 þúsund króna, að sögn talsmanns Lambeth hallarinnar.

„Hann er með öll gögnin til að sanna að hann hafi reynt að borga sektina. Einhverjar kerfisvillur hafa verið að valda vandræðum,“ sagði talsmaðurinn.

Þar sem greiðsla hafði ekki borist vegna sektarinnar í tæka tíð var erkibiskupinn ákærður og fékk hann sömuleiðis þrjá punkta fyrir brotið. 

Situr erkibiskupinn nú uppi með sekt sem nemur 510 pundum, sem nemur 88 þúsund króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert