Hætta að sinna útköllum vegna andlegra veikinda

Gera má ráð fyrir að lögreglan sinni áfram einhverjum útköllum …
Gera má ráð fyrir að lögreglan sinni áfram einhverjum útköllum þrátt fyrir ákvörðunina. AFP/Adrian Dennis

Frá og með september mun lögreglan í Lundúnum ekki sinna útköllum þar sem fólk með andleg veikindi kemur við sögu, nema um beina lífsógn sé ræða. Ákvörðunin er umdeild og hefur fyrrverandi yfirmaður bráðaþjónustu í borginni sagt að ákveðið tómarúm kunni að myndast sem valdi því að andlega veiku fólki verði ekki sinnt. BBC greinir frá.

Fulltrúi Lundúnalögreglunnar gerði heilbrigðisstofnunum og félagsþjónustu í borginni grein fyrir ákvörðuninni í síðustu viku. Breytingarnar eiga að koma í veg fyrir að fjöldi lögreglumanna festist í slíkum útköllum og séu í staðinn lausir til að takast á við önnur verkefni.

Færa ábyrgðina þangað sem hún á heima

Útköllum þar sem andleg veikindi koma við sögu hefur fjölgað mikið á síðustu fimm árum og telja margir lögreglustjórar að fólk noti lögreglu sem fyrsta viðbragð þegar andlega veikir einstaklingar þurfi hjálp, vegna skorts á getu heilbrigðiskerfisins til að sinna fólki og úrræðaleysis félagsþjónustunnar í þeim efnum.

Ábyrgð á að veita heilbrigðisþjónustu er þannig varpað yfir á lögregluna en breytingin er tilraun lögreglunnar til að færa ábyrgðina þangað sem hún á heima, enda séu lögregluþjónar ekki menntaðir til að veita heilbrigðisþjónustu.

AFP/Susannah Ireland

Engin önnur stofnun geti fyllt í skarðið

Zoe Billingham, fyrrverandi yfirmaður bráðaþjónustu hjá borginni, segir að eins og staðan sé nú sé víða ekki hægt að mæta þörfum þessara einstaklinga sem þurfi þó á þjónustu að halda. Stundum þurfi að bregðast skjótt við og í mörgum tilfellum sé ekki hægt að hringja neitt annað en í lögregluna. Engin önnur stofnun geti fyllt upp í það skarð sem myndast, hætti lögreglan að sinna þessum einstaklingum.

Ken March, formaður sambands lögreglumanna í Lundúnum, fagnar ákvörðuninni. Hann segir lögreglumenn oft þurfa að bíða upp í 12 tíma á sjúkrahúsum með andlega veikum sjúklingum eða fólki með elliglöp, sem þeir hafa sinnt vegna útkalla.

Fara eflaust áfram í mörg útköll

Hann segist þó gera ráð fyrir að þetta verði ekki alveg svona klippt og skorið. Lögreglan muni eflaust áfram fara í flest útköll af ótta við hvaða afleiðingar það gæti haft að gera það ekki. Hver og einn lögreglumaður beri ábyrgð á gjörðum sínum á vettvangi og enginn vilji hafa það á samviskunni eða þurfa að svara fyrir að hafa sleppt mikilvægu útkalli.

Billingham er sammála því að eflaust verði áfram farið í einhver útköll, en varar við því að þróunin geti verið hættuleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert