Neitaði stjórnvöldum aðgangi að fjarskiptaneti

Elon Musk lagði til að heimurinn myndi viðurkenna Krímskaga sem …
Elon Musk lagði til að heimurinn myndi viðurkenna Krímskaga sem hluta af Rússlandi til að binda enda á stríðið. AFP/Alain Jocard

Elon Musk segist hafa neitað stjórnvöldum í Kænugarði um aðgang að Starlink fjarskiptaneti sínu yfir Krímskaga til að forðast aðild að „meiriháttar stríði“. BBC greinir frá. 

Stjórnvöld í Kænugarði sendu neyðarbeiðni þar sem þau óskuðu eftir því að Starlink yrði virkjað til Sevastopol, þar sem rússneski sjóherinn heldur til, sagði hann. 

Musk tjáði sig um málið eftir útgáfu bókar þar sem fullyrt er að hann hefði slökkt á Starlink til að koma í veg fyrir drónaárás á rússnesk skip. 

Leiddi til mannskæðra árása

Háttsettur úkraínskur embættismaður segir að þetta hafi gert Rússum kleift að gera árás og sakaði Musk um illindi, þar sem Rússnesk flotaskip tóku síðan þátt í mannskæðum árásum á almenna borgara. 

„Með því að leyfa ekki úkraínskum drónum að eyðileggja hluta rússneska hersins, með Starlink truflunum leyfði Elon Musk þessum flota að skjóta Kalibr flugskeytum á úkraínskar borgir,“ sagði hann.

„Hvers vegna vill sumt fólk svo innilega verja stríðsglæpamenn og löngun þeirra til að fremja morð? Gera þeir sér grein fyrir því að þeir eru ekki að gera gott auk þess að hvetja til illsku?" bætti hann við.

Kafbátadróna árás

Umræðan kom upp í kjölfar útgáfu á ævisögu um milljarðamæringinn, eftir Walter Isaacson, þar sem því er haldið fram að Musk hafi slökkt á aðgangi Úkraínu að Starlink vegna þess að hann óttaðist að fyrirsát rússneska flotans á Krímskaga gæti framkallað kjanorkuviðbrögð frá Kreml

Úkraína gerði árás á rússnesk skip í Sevastopol með kafbátadrónum sem fluttu sprengiefni, en þau misstu tengingu við Starlink og „skoluðust á land án þess að valda skaða,“ skrifaði Isaacson.

Starlink tengistöðvar tengjast SpaceX gervihnöttum á sporbraut og hafa skipt sköpum í að viðhalda nettengingu og samskiptum í Úkraínu þar sem átökin hafa truflað innviði í landinu. 

SpaceX, fyrirtæki sem Musk er einn stærsti hluthafinn af, útvegaði þúsundum Starlink-gervihnattadiska til Úkraínu skömmu eftir að Rússar hófu innrás í Úkraínu, í febrúar á síðasta ári. 

Ekki búið að virkja gervihnattadiska á svæðinu 

Til að bregðast við fullyrðingum í bókinni sagði Musk að SpaceX hefði ekki slökkt á neinu enda hafði ekki verið búið að virkja diskana á þessum svæðum. 

„Það kom neyðarbeiðni frá stjórnvöldum um að virkja Starlink alla leið til Sevastopol. Augljóslega til að útrýma rússneska flotanum,“ sagði hann og bætti við:

„Ef ég hefði fallist á beiðnina, þá væri SpaceX beinlínis þáttakandi í meiriháttar stríði og stigmögnun átaka.“

Dmitrí Medvedev, fyrrverandi forsætisráðherra Rússlands, sagði í færslu á Twitter: „Ef það sem Isaacson skrifaði í bókina er satt, þá lítur út fyrir að Musk sé síðasti maðurinn með heilum hug í Norður-Ameríku.“

Binda endi á stríðið

Musk hefur áður gefið út að á meðan kerfið sé notað sem grunnstoð Úkraínu í átt að fremstu víglínu þá muni fyrirtækið ekki heimila þeim að nota Starlink í langdrægar drónaárásir

Hann ítrekaði það við Isaacson og spurði: „Hvernig er ég í þessu stríði? Starlink var ekki ætlað til þess að nota í stríðum. Það var hannað til þess að fólk gæti horft á Netflix og slakað á, komist á netið í skólanum og gert friðsamlega hluti, ekki drónaárásir.“

Þá setti Musk fram persónulega skoðun sína þar sem hann kallaði eftir vopnahléi og sagði að Úkraínumenn og Rússar væru að deyja „til að eignast og tapa litlum landsvæðum. Það væri ekki lífsins virði.“

Á síðasta ári lagði hann jafnframt fram áætlun um að binda enda á stríðið, með því að leggja til að heimurinn myndi viðurkenna Krímskaga formlega sem hluta af Rússlandi og bað íbúa á svæðum sem Rússar hertóku í fyrra um að kjósa hvaða landi þeir vildu tilheyra. 

Því svaraði rússneski stórmeistarinn í skák, Garry Kasparov, með því að segja að áætlunin væri til marks um „siðferðislega fávisku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert