Heitir áframhaldandi stuðningi við Úkraínu

Fulltrúadeild Bandaríkjanna samþykkti bráðabirgðafjárlög á síðustu stundu í nótt.
Fulltrúadeild Bandaríkjanna samþykkti bráðabirgðafjárlög á síðustu stundu í nótt. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti heitir áframhaldandi stuðningi við Úkraínu eftir að fjárstuðning þangað var ekki að finna í bráðabirgðafjárlögum Bandaríkjanna sem voru samþykkt aðeins nokkrum klukkustundum fyrir upphaf nýs fjárlagaárs. 

Biden hafði krafist þess að sex milljarða dala fjárstuðningur til herliðs Úkraínu væri í fjárlögunum en ýmsir þingmenn Repúblikanaflokksins settu sig upp á móti því með áðurgreindri niðurstöðu. Hópur Repúblikana hefur opinberlega gagnrýnt afstöðu Bidens gagnvart stríðinu í Úkraínu. 

„Við munum ekki ganga á brott“

Biden sagði þó í tilkynningu í dag að frekari fjárveitingar til Úkraínu væru grundvallaratriði. Bandaríkin hafa nú þegar veitt 46 milljörðum bandaríkjadala til Úkraínu síðan að innrás Rússlands í Úkraínu hófst í febrúar á síðasta ári.

Bráðabirgðafjár­lög­in gilda aðeins í 45 daga, eða til 17. nóv­em­ber en ljóst þykir að ekkert fjármagn muni berast frá Bandaríkjunum til Úkraínu á þeim tíma að öllu óbreyttu.

„Ég vil fullvissa bandamenn okkar, fólkið í Bandaríkjunum og fólkið í Úkraínu að það geti treyst á okkar stuðning. Við munum ekki ganga á brott,“ sagði Biden í ávarpi í Hvíta húsinu í dag. Hann bætti við að það skipti öllu máli að þingið samþykki fjárveitingu til Úkraínu á næstu dögum eða vikum fyrir komandi átök Úkraínu gegn Rússlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka