Ástandið heldur áfram að versna á Gasasvæðinu og að sögn svæðisstjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar verður svæðið uppiskroppa með vatn, rafmagn og eldsneyti á næstu 24 klukkustundum.
„Ef aðstoð verður ekki hleypt inn á umsáturssvæðið verða læknar að útbúa dánarvottorð fyrir sjúklinga sína,“ segir svæðisstjórinn Ahmed al-Mandhari í samtali við AFP fréttaveituna.
Ísraelsher hefur haldið uppi linnulausum loftárárásum á Gasasvæðið undanfarna tíu daga í hefndarskyni fyrir árás Hamas á Ísrael þann 7. október þar sem 1.400 manns féllu í valinn, flestir almennir borgarar í suðurhluta Ísrael.
Heilbrigðisráðuneytið á Gasa, sem er undir stjórn Hamas, sagði í dag að um 2.750 manns hafi látist og 9.700 særst á meðan, og Sameinuðu þjóðirnar segja að um ein milljón manna séu á vergangi.
Israel Katz, orkumálaráðherra Ísraels, greindi frá því í gær að kveikt hafi verið á vatnsveitu í suðurhluta Gasa, viku eftir að Ísraelar lokuðu fyrir vatn og sendingar á vatni og matvælum til fólks.
„Það verður að berast aðstoð á Gasasvæðið innan sólarhrings áður en ástandið þar verður algjörlega óviðráðanlegt,“ segir Mandhari.