Dauðalyktin er yfirþyrmandi í réttarlækningamiðstöð Ísraels, þar sem sérfræðingar hafa reynt að bera kennsl á líkamsleifar þeirra sem féllu í hryðjuverkaárásum Hamas á Ísrael. Flest líkin eru full af byssukúlum, limlest eða óþekkjanleg þar sem kveikt var í sumum fórnarlömbunum. Sum fórnarlambanna voru ungabörn.
Í frétt AFP er farið yfir sögur þeirra sem hafa þurft að meðhöndla lík Ísraela sem fórust í fjöldamorði Hamas.
Læknasérfræðingar hafa þurft að rannsaka líkamsleifarnar vandlega og nota DNA sýni, fingraför og tannlæknaskýrslur til að reyna að bera kennsl á fórnarlömbin. Í sumum tilfellum þurfa þeir að púsla saman afskornum líkamshlutum þar sem það er hefð meðal margra gyðinga að grafa þurfi lík í heild sinni.
„Við ákváðum að sýna þennan hrylling vegna þess að það er fólk sem sakar okkur um að ljúga,“ sagði Hen Kugel, forstjóri réttarlækingastöðvar Ísraels. Meira en 1.400 Ísraelar hafa látist síðan palestínsku Hamas-samtökin hófu sína hrottalegu árás á Ísrael 7. október. Var þetta mesta fjöldamorð á gyðingum síðan helförinni lauk.
Kugel benti á flækju af beinum og rifum af holdi sem haldið var saman með rafmagnssnúru sem var brædd í bráðnu plasti.
„Á skannanum,“ útskýrði hann við AFP, „sjáum við greinilega tvær mænusúlur, karl eða konu og barn. Ástand líkanna tveggja sýnir að hinn fullorðni reyndi að vernda barnið. Þau voru bundin og síðan brennd lifandi,“ útskýrir Kugel.
„Ég hef gegnt þessu starfi í 31 ár. Ég hef aldrei séð svona villimennsku, svona grimmd, svona vægðarleysi. Þetta er bara hræðilegt."
Nurit Boublil, yfirmaður erfðagreiningardeildar, sagði við AFP að meira en 500 lík hefðu nú verið auðkennd. Erfiðlega gangi hins vegar að auðkenna lík þar sem að þeir sem voru pyntaðir til dauða hafi oft verið bundnir saman.
„Það er því mögulegt að í einum poka séu tvö lík eða jafnvel þrjú,“ sagði Boublil.
Sum fórnarlambanna eru ungabörn og eldri borgarar sem ýmist voru limlest eða brennd. Sumir tóku það upp á sig að ásaka stjórnvöld Ísraels um ljúga því að ungabörn hafi verið afhöfðuð og myrt og því hafa myndir af líkum ungabarna verið birtar af ísraelskum stjórnvöldum.
„Við vitum enn ekki hversu mörg börn dóu eða hversu margir aldraðir,“ sagði Kugel. „Það er líka fullt af hauslausum líkum. Það mun taka aðeins meiri tíma að bera kennsl á alla.“
Í kjölfar árásarinnar lýstu Ísraelar yfir stríði á hendur hryðjuverkasamtakanna og samkvæmt heilbrigðisráðuneytinu á Gasa, sem er stýrt af Hamas, hafa um 2.700 manns verið drepin í flugskeytaárásum Ísraela. Stefnir nú allt í innrás Ísraelshers inn á Gasasvæðið með það að markmiði að uppræta Hamas-samtökunum fyrir fullt og allt, að er ísraelsk stjórnvöld segja.