Engin hjálpargögn berast til Gasa

Þúsundir hafa látist í átökunum milli Hamas-samtakanna og Ísraelshers.
Þúsundir hafa látist í átökunum milli Hamas-samtakanna og Ísraelshers. AFP/Yuri Cortez

Ísraelsher hyggst ekki samþykkja tímabundið vopnahlé í dag svo mannúðarsamtök geti flutt lífsnauðsynleg hjálpargögn inn á Gasasvæðið þar sem rúmlega tvær milljónir íbúa eru fastar. 

Hamfaraástand ríkir á Gasasvæðinu þar sem innrás Ísraelshers er yfirvofandi. Enginn veit þó hvenær herinn ræðst til atlögu.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er í Ísrael og fundar í dag með Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. Blinken hefur lagt ríka áherslu á að óbreyttir borgarar eigi ekki að gjalda fyrir hryðjuverk Hamas-samtakanna.

Fordæmalaus árás

Ísraelsk stjórnvöld lýstu yfir stríði á hendur Hamas í kjölfar fordæmalausrar hryðjuverkaárásar vígasamtakanna á Ísrael 7. október. Ríflega 1.400 féllu í árásinni, flestir óbreyttir borgarar.

Um 2.750 hafa fallið á Gasasvæðinu í gagnárásum Ísraelshers, flestir óbreyttir borgarar.

Hamas-samtökin eru sögð hafa rænt 199 manns í árásinni fyrir rúmri viku. Ísraelsk stjórnvöld segja það í algjörum forgangi að frelsa fólkið. Þá hefur Ísraelsher látið sprengjum rigna á vígi Hamas á suðurhluta Gasasvæðisins.

Leiðtogar Arabaríkjanna hafa kallað eftir því að endir verði bundinn á hernaðaraðgerðir og að mannúðargangur verði tryggður inn á Gasasvæðið svo hægt sé að flytja nauðsynlegar birgðir til íbúa og veita þeim aðstoð.

Þá hefur Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kallað eftir því að Hamas sleppi gíslunum úr haldi og að Ísrael veiti skjótan og óhindraðan aðgang fyrir mannúðaraðstoð á Gasasvæðið.

Komast ekki burt

Á Gasasvæðinu, sem ríflega tvær milljónir manna búa á, ríkir neyðarástand. Matvæli, lækningavörur og aðrar nauðsynjar eru af skornum skammti. Mörg hundruð þúsund hafa flúið Gasa-borg sunnar á Gasasvæðið, vegna yfirvofandi innrásar Ísraelshers. 

„Ekkert rafmagn, ekkert vatn, ekkert netsamband. Mér líður eins og ég sé að missa mennskuna mína,“ sagði Mona Abdel Hamid, sem flúði Gasa suður til Rafah, þar sem hún leitar nú skjóls hjá ókunnugu fólki. 

Íbúar Gasa eru fastir innan Gasasvæðisins þar sem ísraelsk og egypsk stjórnvöld hafa lokað útgönguleiðunum.

Erlendir ríkisborgarar fastir á Gasasvæðinu hafa hópast saman við Rafah-útgönguleiðina, við landamæri Egyptalands, í von um að komast yfir. 

„Þeir hafa sagst ætla ganga frá Hamas, en núverandi vegferð þeirra mun leggja Gasa í rúst,“ sagði Lynn Hastings, yfirmaður mannúðarstarfs fyrir Palestínumenn.

Í viðbragðsstöðu

Ísraelsher er í viðbragðsstöðu við Gasasvæðið og er innrás yfirvofandi. Verður árás gerð frá sjó, úr lofti og af landi. Þá hefur íbúum í grennd við landamæri Líbanons verið gert að rýma hús sín.

Stjórnvöld í Íran, sem hafa stutt við Hamas-samtökin, hafa sagt að innrás á Gasa muni hafa afleiðingar.

„Enginn getur tryggt stjórn á aðstæðum og að átökin breiðist ekki út ef Ísraelsher sendir hermann á Gasa,“ sagði Hossein Amir-Abdollahian, utanríkisráðherra Íran.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa lýst yfir áhyggjum af beinni aðkomu Íran að átökunum.

Í viðtali við CBS sagði Joe Biden að hann teldi ekki nauðsynlegt að senda bandaríska hermenn þangað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka